Þrír sjúklingar létust af völdum COVID-19 á Landspítala síðasta sólarhring, samkvæmt tilkynningu sem birtist á vef spítalans í morgun. Tveir sjúklingar höfðu látist af sjúkdómnum sólarhringinn þar á undan, eða alls fimm manns á einungis tveimur sólarhringum.
Tuttugu og þrír einstaklingar hafa nú látið lífið eftir að hafa smitast af COVID-19 á Íslandi frá því að kórónuveirufaraldurinn barst til landsins í lok febrúarmánaðar. Þrettán hafa látist í hinni svokölluðu þriðju bylgju faraldursins, en tíu létust í fyrstu bylgjunni.
Hópsýking sem kom upp á Landakoti í lok október varð til þess að veiran barst til þess hóps í samfélaginu sem síst skyldi, en alls 10 af þeim 13 andlátum sem hafa orðið tengjast hópsýkingunni, samkvæmt því sem fram kemur á Vísi í dag.
Rúmlega 600 manns eru nú í einangrun með virkt smit COVID-19 og um þúsund manns til viðbótar eru í sóttkví eftir að hafa orðið útsett fyrir smiti. Samkvæmt tölum á vefnum covid.is voru alls 80 manns innlögð á sjúkrahús í gær.