„Þetta er frábær dagur fyrir vísindin og mannkynið,“ er haft eftir forstjóra lyfjarisans Pfizer í fréttatilkynningu í dag, vegna nýrra tíðinda af bóluefni gegn COVID-19 sem fyrirtækið er að þróa ásamt þýska lyfjafyrirtækinu BioNTech.
Bóluefnið er sagt framkalla vörn gegn veirunni í yfir 90 prósent tilfella, hjá þeim einstaklingum sem hafa tekið þátt í klínískum rannsóknum fyrirtækjanna undanfarna mánuði.
Bóluefnið er á þriðja stigi öryggisprófana og hafa niðurstöðurnar úr tilraununum, sem farið hafa fram í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Brasilíu, Argentínu, Suður-Afríku og Tyrklandi, verið framar vonum.
Tíðindin hafa leitt til þess að hlutabréfamarkaðir víða um heim hafa tekið nokkuð við sér í morgun, samkvæmt frétt Reuters.
Virkni umfram væntingar
Samkvæmt því sem fram kemur fram í tilkynningu fyrirtækjanna hefur bóluefnið verið prófað á rúmlega 43.500 manns í þessum sex löndum án þess að nokkrar alvarlegar aukaverkanir hafi látið á sér kræla.
Virkni þess er sögð framar væntingum, en bóluefnið er gefið í tveimur skömmtum með þriggja vikna millibili og sýna niðurstöðurnar fram á að sjö dögum eftir annan bóluefnisskammtinn, 28 dögum eftir þann fyrsta, hafa meira en 90 prósent þátttakenda sýnt fram á ónæmissvar gegn kórónuveirunni.
Fyrirtækin tvö stefna að því að sækja um leyfi til bandarískra yfirvalda um að fá að hefja dreifingu bóluefnisins í þriðju viku nóvembermánaðar.
Þau búast við því að framleiða 50 milljón skammta af bóluefninu fyrir lok þessa árs og allt að 1,3 milljarða skammta á næsta ári, ef allt gengur eftir.
Býr líkamann undir að verjast sýkingu
Alls eru ellefu bóluefni núna komin langt í þróun á heimsvísu, samkvæmt umfjöllun New York Times um þennan áfanga.
Bóluefni Pfizer og BioNTech er eitt af nokkrum sem eru í þróun sem innihalda genaupplýsingar (mRNA) fyrir svokölluð gaddaprótein sem eru á yfirborði kórónuveirunnar, SARS-CoV-2. Gefa þessar niðurstöður því vonir um að önnur fyrirtæki sem eru að beita sömu nálgun nái líka góðum árangri með sín bóluefni.
Í umfjöllun á vef Lyfjastofnunar um tilraunir Pfizer og BioNTech kemur fram hvernig slík bóluefni verka, en þar segir að þegar bóluefnið hafi verið gefið byrji frumur líkamans að framleiða sín eigin gaddaprótein. Ónæmiskerfið lítur á þau sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur gegn veirunni.
Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkomandi einstakling gegn sýkingu af völdum SARS-CoV-2 kórónaveirunnar, þar sem ónæmiskerfið kemur til með að þekkja veiruna og ráðast gegn henni.