Baráttan gegn kórónuveirunni SARS-CoV-2 hefur nú staðið í tæpt ár. Ýmislegt hefur áunnist á þeim tíma, s.s. skimanir og lyfjameðferðir en bjargvætturinn út úr faraldrinum, bóluefni, hefur enn sem komið er verið rétt utan seilingar.
En nú eru blikur á lofti. Tvö lyfjafyrirtæki, Pfizer og BioNTech, hafa unnið í sameiningu að þróun bóluefnis sem nú þykir sannað að muni gefa góða raun. Níutíu prósent þeirra sem fengið hafa bóluefnið hafa myndað ónæmi sem þykir eins góður árangur og hægt er að vonast til af „fyrstu kynslóð“ nýs bóluefnis.
Aldrei áður í mannkynssögunni hefur tekið jafn skamman tíma að þróa bóluefni. Tugir fyrirtækja víða um heim eru að þróa slíka vörn gegn veirunni en nokkur þeirra skara framúr og lofa góðu. Fleiri en eitt bóluefni þarf líklegast til og því eru þetta góðar fréttir sem margir vilja meina að séu upphafið af endalokum faraldursins sem sett hefur heimsbyggðina á hliðina á undanförnum mánuðum.
Um 43 þúsund manns hafa tekið þátt í tilraunum Pfizer og BioNTech. Hópurinn samanstendur af alls konar fólki af ýmsum kynþáttum.
Það er þó of snemmt að fagna. Ýmsum spurningum er enn ósvarað og tilraunir lyfjafyrirtækjanna halda nú áfram.
Ein spurningin er sú hversu vel bóluefnið mun gagnast eldra fólki, þeim hópi fólks sem er hvað líklegastur til að veikjast alvarlega af sjúkdómnum. Einnig á eftir að koma í ljós hvort að sá sem fengið hefur bóluefnið geti engu að síður smitað aðra, það er að segja, þó að hann sýni ekki einkenni COVID-19. Þá er enn ekki fullvíst hversu löng virkni efnisins er.
Það er af þessum sökum m.a. sem mikilvægt er að fleiri en eitt bóluefni verði aðgengilegt. Eitt þeirra sem er í þróun við Oxford-háskóla, hefur til að mynda kallað fram gott ónæmissvar hjá eldra fólki.
Næstu skref Pfizer og BioNTech er að safna frekari gögnum úr rannsóknum sínum. Að því loknu munu fyrirtækin fá sérstakt neyðarleyfi, sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur heimilað að gefin verði út að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo koma megi bóluefninu í notkun. Það mun þó ekki gerast fyrr en í fyrsta lagi á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Það er svo í höndum opinberra aðila innan hvers lands að forgangsraða hverjir fá efnið, sem verður fyrst í stað af skornum skammti. Vonir standa þó til þess að gangi allt að óskum verði hægt að framleiða 1,3 milljarða skammta af bóluefni Pfizer á næsta ári.
Um stærstu bólusetningarherferð mannkyns verður að ræða og þegar hefur verið ákveðið stofnanir á borð við UNICEF, sem hefur mikla þekkingu og reynslu á dreifingu bóluefna í fátækum ríkjum heims, komi að því verkefni.
Nýstárleg aðferð
Bóluefni Pfizer er sögulegt í ýmsu öðru tilliti en hversu hratt hefur tekist að þróa það. Aðferðinni sem beitt er, mRNA, er nýstárleg og hefur hingað til ekki verið notuð við gerð bóluefna fyrir manneskjur.
Alls eru ellefu bóluefni núna komin langt í þróun á heimsvísu, samkvæmt umfjöllun New York Times um þennan áfanga og nokkur þeirra innihalda, eins og bóluefni Pfizer og BioNTech, genaupplýsingar (mRNA) fyrir svokölluð gaddaprótein sem eru á yfirborði kórónuveirunnar, SARS-CoV-2. Gefa þessar niðurstöður því vonir um að önnur fyrirtæki sem eru að beita sömu nálgun nái líka góðum árangri með sín bóluefni.
Í umfjöllun á vef Lyfjastofnunar um tilraunir Pfizer og BioNTech kemur fram hvernig slík bóluefni verka, en þar segir að þegar bóluefnið hafi verið gefið byrji frumur líkamans að framleiða sín eigin gaddaprótein. Ónæmiskerfið lítur á þau sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur gegn veirunni.
Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkomandi einstakling gegn sýkingu af völdum SARS-CoV-2 kórónuveirunnar, þar sem ónæmiskerfið kemur til með að þekkja veiruna og ráðast gegn henni.