Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir að Samfylkingin og Viðreisn væru augljósu kostirnir fyrir Pírata í ríkisstjórnarsamstarfi eftir næstu kosningar, sem fram fara í september á næsta ári. „Það þyrfti væntanlega að verða fjórði aðili. Ég veit ekki hver það yrði, bara hver það yrði ekki. Það yrði klárlega ekki Sjálfstæðisflokkurinn og ég sé engar forsendur til að vinna með Miðflokknum.“
Þetta kemur fram í viðtali við Halldóru í hlaðvarpsþættinum Arnarhóli sem fór í loftið í morgun.
Þar segir Halldóra að hún upplifi Pírata sem frjálslyndan félagshyggjuflokk á miðjunni. Hún sjái Samfylkinguna líka sem frjálslyndan flokk sem halli sér til vinstri og Viðreisn sem slíkan sem halli sér til hægri. Hún segir að hún þoli ekki þá forræðishyggju sem henni finnst birtast víða í stjórnmálum. „Það er ástæðan fyrir því að ég á mjög erfitt með suma flokka. Þessi íhaldssemi felur í sér ofboðslega mikið stjórnlyndi og forræðishyggju.“
Embættið getur breytt fólki í róbóta
Halldóra segir að það standi ekki til að mynda sérstakt kosningabandalag flokka líkt og gert var skömmu fyrir kosningar 2016. Það hafi einfaldlega verið mistök og þau verði ekki endurtekin.
Halldóra tjáir sig líka um Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, í hlaðvarpinu. Hún segist ekki þekkja forsætisráðherra persónulega heldur einungis í gegnum vinnuna og mögulega sé það embættið sjálft sem breyti fólki í hálfgerða róbóta. „Þegar fólk fer inn í þessi valdaembætti þá er það alltaf í vörn. Það fer að tala eitthvað allt annað tungumál og nota einhvern tón sem mér finnst varla vera mennskur lengur. ég væri til í að sjá manneskju taka þetta embætti sem gæti tæklað þetta á þann átt að manneskjan gæti breytt embættinu frekar en að láta embættið breyta sér.“
Samfylkingin vill sama samstarf
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ítrekað talað fyrir ríkisstjórnarsamstarfi þar sem Samfylkingin, Píratar og Viðreisn séu uppistaðan og að einn annar flokkur, annað hvort Vinstri græn eða Framsóknarflokkur, bætist við til að mynda meirihluta. Hann hefur sömuleiðis ítrekað sagt að ekki sé málefnalegur grundvöllur fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokk eða Miðflokk. Þá hefur Logi nefnt sömu málaflokka og Halldóra sem mögulegan grundvöll fyrir samstarfi frjálslyndu flokkanna þriggja.
Síðast gerði Logi þetta á landsfundi Samfylkingarinnar um liðna helgi þar sem hann sagði einu leiðina að ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki með „fingurna í fjármálum ríkisins“ væri stuðningur við Samfylkinguna. „Sjálfstæðisflokkurinn er sundraður og klofinn, sem er reyndar hætt að sæta tíðindum. Þau íhaldssömustu ganga nú í Miðflokkinn, eitt af öðru og hörðustu markaðssinnarnir eru farnir í Viðreisn. Það eru engin prinsipp eftir, bara varðstaða um þrönga sérhagsmuni. Millitekjufólk og smærri atvinnurekendur eiga enga málsvara þarna lengur – hvað þá tekjulægstu hóparnir.“
Viðreisn varkár í yfirlýsingum
Forystufólk Viðreisnar hefur lítið gefið upp opinberlega um hvaða ríkisstjórnarsamstarf það sér sem eftirsóknarverðast eftir næstu kosningar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, gaf þó skýrt til kynna í viðtali við Kjarnann hvert hugur hennar stefnir eftir næstu kosningar, án þess að nefna sérstaklega flokka. „„Við þurfum fólk sem raunverulega meinar það þegar það talar um gagnsæi og um að miðla upplýsingum og situr ekki á skýrslum rétt fyrir kosningar. Þess vegna þarf að vera þungi og alvara af okkar hálfu sem erum í stjórnmálum því við getum breytt hlutunum. Það þýðir ekki að tipla á tánum í kringum þetta gamla. Það gamla varð til út af ákveðinni ástæðu og allt í góðu með það en í dag er annar tími sem gerir kröfur og setur ábyrgð á herðar okkar sem eru í stjórnmálum að breyta – og uppfæra.“
Þar vísaði Þorgerður í að fyrir kosningarnar 2016 hafi tvær skýrslur sem fjölluðu um mál sem voru á meðal stærstu álitaefna síðustu ára, aflandeignir Íslendinga og skiptingu Leiðréttingarinnar milli landsmanna, verið tilbúnar. Þær voru hins vegar ekki birtar fyrr en eftir kosningarnar 2016. Báðar skýrslurnar voru unnar fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem var, og er, stýrt af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.
Þessir þrír flokkar: Samfylkingin, Píratar og Viðreisn fengu samanlagt 28 prósent atkvæða í þingkosningunum 2017. Í síðustu könnun Gallup mældist sameiginlegt fylgi þeirra 39,6 prósent og í síðustu könnun MMR mældist það 38,4 prósent. Það fylgi ætti að duga til að geta myndað ríkisstjórn að óbreyttu með annað hvort Vinstri grænum eða Framsókn.
Flokkarnir þrír eru þegar í samstarfi í næst stærsta stjórnvaldi landsins, Reykjavíkurborg. Þar sitja Vinstri græn með þeim líka.