Vegna greinar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu þar sem hún sagði að fréttamaður Spegilsins hefði afflutt í pistli sínum á mánudag efni í skýrslu GRECO-samtakanna um íslenska stjórnsýslu vill Spegillinn taka fram að hann stendur við efni pistilsins.
Þetta kom fram í Speglinum á Rás 1 í gær.
„Orð ráðherra um að fréttamaður hafi ekki greint rétt frá eru tilhæfulaus. Spegillinn hafnar því algerlega að í pistlinum hafi verið lýst yfir pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir. Ráðherra hefur ekki sent fréttastofu RÚV formlega athugasemd vegna pistilsins,“ sagði enn fremur í Speglinum.
Sagði pistlahöfund lýsa pólitískri afstöðu „án tengsla við staðreyndir“
Kjarninn fjallaði um málið í gær en Áslaug Arna sagði í grein sinni að pistlahöfundur „útvarps allra landsmanna“ hefði kosið „að afflytja málið og lýsa pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir“ þegar viðkomandi fjallaði um úttekt GRECO á aðgerðum Íslands gegn spillingu. Höfundurinn er Sigrún Davíðsdóttir.
Ástæðan er pistill sem birtist á vef RÚV í byrjun viku undir fyrirsögninni: „GRECO, tvö ráðuneyti, tvær sögur.“ Þar fjallaði Sigrún um hvernig tvö ráðuneyti, forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið, hefðu greint með mismunandi hætti frá niðurstöðu úttektar GRECO, en líkt og Kjarninn greindi frá á mánudag fólst í henni að GRECO teldi að Ísland hefði komið til móts við fjórar tillögur af 18 sem settar voru fram í skýrslu um Ísland með fullnægjandi hætti. Sjö tillögur til viðbótar eru sagðar hafa verið innleiddar að hluta, en ekki er búið að innleiða breytingar til þess að mæta sjö tillögum sem lúta flestar að löggæslumálum.
Í umfjöllun Sigrúnar er bent á að í tillkynningu frá forsætisráðuneytinu segi: „Samkvæmt eftirfylgniskýrslu GRECO hefur Ísland nú innleitt fjórar tillögur sem varða æðstu handhafa framkvæmdarvalds. Fjórar til viðbótar eru innleiddar að hluta að mati samtakanna en ein tillaga telst ekki innleidd.“
Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir hins vegar: „Af 18 tilmælum GRECO hafa níu verið uppfyllt, þrjú að hluta og sex á eftir að uppfylla,“ og bent á að þar sé því sleppt að nefna að dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki uppfyllt nein tilmæli sem sett voru fram í skýrslunni 2018. Sigrún skrifaði svo að báðar tilkynningarnar væru kórréttar, en að gagnsæi gæti sannarlega tekið á sig margar myndir.
Dómsmálaráðherra sagði í grein sinni að Sigrún hefði kosið að gera lítið úr því sem gert hefur verið á vegum dómsmálaráðuneytisins og látið í veðri vaka að þar væri hvorki áhugi né vilji á aðgerðum gegn spillingu. Það væri ósatt og að margt væri í farvegi sem talsmaður GRECO hefði farið lofsamlegum orðum um. „Greiðendur útvarpsgjaldsins eiga rétt á því að greint sé rétt frá. Ýmislegt hefur verið aðhafst í málefnum lögreglunnar undanfarið og frekari breytingar til hins betra eru framundan,“ skrifaði Áslaug Arna.