Aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft lítil áhrif á magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu. Þó að losun koltvíoxíðs hafi minnkað umtalsvert í ár hefur það að mati vísindamanna við Alþjóðlegu veðurstofnunina (WMO) aðeins haft smávægileg áhrif á uppsöfnun lofttegundarinnar.
Gróðurhúsalofttegundir sem losaðar eru, s.s. koltvíoxíð og metan, safnast upp í lofthjúpi jarðar. Það hafa þær gert í gegnum áratugina og þó að losun dragist tímabundið saman hefur það lítið að segja.
Með Parísarsáttmálanum skuldbundu þjóðir heims sig til að draga úr losun þessara lofttegunda sem m.a. fara út í andrúmsloftið með bruna jarðefnaeldsneytis. Gróðurhúsalofttegundir gleypa varmageislun frá jörðu og hita þannig yfirborð hennar. Þessi gróðurhúsaáhrif valda hlýnun jarðar og ógna matvælaframleiðslu, hækka yfirborð sjávar og ýta undir öfgafull veðurfyrirbæri á borð við hvirfilbylji, þurrka og flóð.
Magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu jókst meira á milli áranna 2017 og 2018 en að meðaltali allan áratuginn á undan. Í ár hefur losun lofttegundarinnar dregist saman um 17 prósent frá síðasta ári en vísindamenn telja að það muni hafa lítil áhrif á heildarmagn hennar í andrúmsloftinu og að sveiflan sé innan þeirra marka sem hún oft er frá náttúrunnar hendi milli ára.
Framkvæmdastjóri Alþjóða veðurstofnunarinnar, Petteri Taalas, segir að áhrif samkomu- og ferðatakmarkana eru aðeins „lítill depill“ á loftslagskúrfunni til lengri tíma litið. „Við verðum að halda áfram að fletja hana út,“ segir hann, svo að árangur af samdrætti í losun komi í ljós.
Veðurstöðvar sem mæla magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu hafa margar hverjar sýnt að það hefur haldið áfram að aukast í ár þrátt fyrir takmarkanir á athöfnum manna í faraldrinum. Ein mikilvægasta veðurstöðin sem safnar slíkum gögnum er á Hawaii og samkvæmt henni er aukningin í ár miðað við það síðasta töluverð. Sömu sögu er að segja frá mælingum stöðvar sem staðsett er í Tasmaníu utan við Ástralíu. Magn annarra gróðurhúsalofttegunda, s.s. metans, hefur einnig aukist.
Þrátt fyrir að aðgerðir í faraldrinum hafi ekki minnkað magn þessara gróðurhúsalofttegunda, þar sem þær hafa langan líftíma í andrúmsloftinu, telur Taalas reynsluna sem fékkst á fyrstu mánuðum ársins skipta máli.
„Faraldur COVID-19 er ekki lausnin á loftslagsvandanum,“ segir hann við BBC. Hins vegar hafi hann sýnt hvaða áhrif algjör breyting á iðnaði okkar, orkunýtingu og samgöngum getur haft og til hvaða metnaðarfullu aðgerða þurfi að grípa til að draga úr losuninni. „Þær breytingar sem þarf að ráðast í eru efnahagslega og tæknilega mögulegar og myndu aðeins hafa smávægileg áhrif á hversdagslíf okkar.“