Argentínska knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona lést af völdum hjartaáfalls í dag, sextugur að aldri, samkvæmt argentínska fréttamiðlinum Clarín.
Breski miðillinn Daily Mail greindi einnig frá andlátinu, en samkvæmt honum lést Maradona á heimili sínu, tveimur vikum eftir að hafa undirgengist aðgerð vegna blóðtappa í heilanum.
Maradona, sem spilaði meðal annars með argentínska landsliðinu í knattspyrnu og félagsliðunum Barcelona, Napoli og Sevilla, er víða álitinn hafa verið besti knattspyrnumaður allra tíma.
Á landsliðsferli sínum skoraði hann 34 mörk í 91 leik, en á meðal þeirra var markið sem kallað var „hönd guðs“ og var skorað í átta-liða úrslitum heimsmeistaramótsins árið 1986 gegn enska landsliðinu.
Maradona átti einnig farsælan feril með liði Napoli, en liðið vann efstu Serie A-deildina tvisvar með hann í fararbroddi. Hann hætti svo með liðinu árið 1991, en sama ár var hann settur í 15 mánaða keppnisbann eftir að kókaín hafði greinst í lyfjaprófi hjá honum.