Ellefu manns greindust með COVID-19 innanlands í gær. Allir eru þeir búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Átta voru ekki í sóttkví.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í morgun að heldur meiri fjöldi væri að greinast núna og sömuleiðis væru fleiri utan sóttkvíar en síðustu daga. Hann hefur skilað tillögum til heilbrigðisráðherra um framhald aðgerða frá og með 2. desember. Ekki sé tímabært að greina frá hverjar þær eru en ef að sýnt þyki að útbreiðslan á COVID-19 sé aftur að vaxa í samfélaginu gæti hann þurft að endurskoða tillögurnar fyrir þann tíma.
„Almennt er bylgjan sem við erum að berjast við vel á niðurleið en ennþá erum við að greina fleiri utan sóttkvíar heldur en áður og er það áhyggjuefni,“ sagði Þórólfur. Smitum innanlands hafi farið fækkandi síðustu daga sem sýnir árangur af aðgerðum og góðri þátttöku almennings í þeim. „En hins vegar eru vísbendingar um að þróunin gæti verið að snúast við miðað við fjölgun í samfélagssmitum undanfarna daga sem erfitt er að rekja.“ Einnig nefndi Þórólfur að gögn vísindamanna við Háskóla Íslands bentu til að smitstuðull gæti verið að fara aftur upp á við.
Smitin sem greinst hafa síðustu daga má m.a. rekja til stórra verslunarstöðva, að fólk hafi farið óvarlega í veisluhöldum, sérstaklega um síðustu helgi, og líka þess að fólk í sóttkví færi óvarlega. „Við biðlum til fólks að gæta vel að sér á öllum þessum sviðum.“
Vísbendingar víða
Þórólfur sagði ástæðu til að fara varlega í allri hópamyndun á næstunni. Nokkuð margir eru að greinast á landamærunum þessa dagana og í gangi væru aðgerðir til að halda fólki við efnið til að minnka áhættuna á því að smit komist þaðan inn í samfélagið. „Nú ríður á að við stöndum okkur öll í okkar einstaklingsbundnu sýkingavörnum,“ sagði Þórólfur. „Við stöndum á ákveðnum krossgötum þar sem mikið ákall er eftir afléttingu en á sama tíma erum við að sjá merki um að faraldurinn gæti verið að fara af stað enn á ný.“ Sagði hann að samstaðan hefði skilað árangri og að hún verði að vera áfram því „ekki viljum við missa faraldurinn úr höndunum á þessari stundu“.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði vísbendingar um að fólk væri farið að slaka of mikið á. Hann minnti á að nú væri undirbúningur fyrir jólahátíðina í hámarki. Fyrir mörg okkar yrði þessi tími frábrugðinn því sem við værum vön. Verið sé að leggja lokahönd á ráðleggingar og leiðbeiningar varðandi hátíðarhöldin og verða þær gefnar út fljótlega.