Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra deildi því með landsmönnum í kvöld að alls hefðu tólf manns orðið útsett fyrir smiti vegna kórónuveirusmits eiginkonu hans, að honum meðtöldum. Ekki hefur tekist að rekja uppruna smitsins.
Samkvæmt Facebook-færslu sem Víðir birti var um að ræða fjölskyldumeðlimi og vinafólk sem var gestkomandi á heimili þeirra hjóna laugardaginn 21. nóvember, alls um tíu manns.
Fimm þeirra sem komu í heimsókn smituðust af veirunni. Þeirra á meðal er vinafólk hjónanna, sem býr á landsbyggðinni en komu til höfuðborgarsvæðisins síðasta laugardag og dvelja tímabundið á heimili Víðis sökum þess að þau þurftu að sækja læknisþjónustu í borgina.
Víðir rekur í færslu sinni hverjir hafi verið útsettir fyrir smiti á heimili þeirra þennan laugardag. „Dætur [vinafólksins utan af landi] kíktu stutt í kaffi á sunnudeginum. Vinkona okkar kom stutt við í kaffi líka. Börn okkar, tengdadóttir og barnabarn komu einnig við og um kvöldið komu til okkar vinahjón sem stoppuðu stutt. Í öllum tilfellum var passað upp á fjarlægðir á milli okkar og gesta og reyndum að forðast sameiginlega snertifleti. Þegar smitrakning hafi lokið að fara yfir tilfelli okkar þótti ljóst að 12 voru útsettir að mér meðtöldum og fóru í sóttkví,“ segir Víðir í færslu sinni.
Þar segir hann einnig frá að búið sé að fara vel yfir öll samskipti sem þau hjónin áttu við gesti sína og fundið út að „fjarlægð sem var haldin var um eða yfir 2 metra við alla.“
„Hins vegar er ljóst að við pössuðum ekki upp á alla sameiginlega snertifleti. Vatnsskanna, kaffibollar og glös hafa sennilega verið sameiginlegir snertifletir sem hafa dugað til að smita,“ skrifar Víðir.
Þungbært að þetta sé staðan
„Sjálfur hef ég verið manna duglegastur við að hvetja alla til að passa eigin sóttvarnir og því þungbært að þetta sé staðan. Við getum ekki annað en vonað að við öll, eins og allir þeir fjölmörgu sem eru að berjast við þennan óvætt komum heil út úr þessu,“ skrifar Víðir, en í færslu hans kemur einnig fram að þau hjónin hafi verið verulega slöpp í gær, eftir að hafa verið með væg einkenni í fyrstu. Dagurinn í dag hafi verið skárri.
Hann segir að þau hjónin hafi þrengt verulega þann hóp sem þau hafi umgengist frá því að faraldurinn kom til landsins. Það hafi þau gert til að lágmarka áhættu á því að bera smit á milli. Víðir segir að eiginkona hans hafi farið að finna fyrir einkennum síðasta mánudag og farið strax heim úr vinnu og pantað tíma í sýnatöku.
„Uppruni smitsins hjá konunni minni er óþekktur og hefur smitrakning þar ekki skilað árangri. Hún vinnur á skrifstofu og eina sem hún fór dagana fyrir einkennin var í vinnuna og í verslanir. Vinnufélagar hennar hafa allir farið í skimun og reynst neikvæðir,“ segir í færslu Víðis.