Tuttugu og einn einstaklingur greindist með COVID-19 innanlands í gær, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is. Meirihluta þeirra sem greindust voru þegar í sóttkví, eða alls 13 manns, en 8 manns voru utan sóttkvíar við greiningu.
Rúmlega sexhundruð manns eru nú í sóttkví á landinu og 660 manns til viðbótar eru í skimunarsóttkví eftir að hafa komið til landsins erlendis frá.
Á fimmtudag greindust tuttugu manns með veiruna og voru ellefu þeirra utan sóttkvíar. Þessi þróun virðist ætla að setja áform um að slaka eitthvað á sóttvarnaráðstöfunum á landinu í upphafi desembermánaðar í uppnám.
Í viðtölum við fjölmiðla í gær lýsti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir yfir miklum áhyggjum af stöðunni og sagði vísbendingar um að faraldurinn væri að fara upp í veldisvöxt aftur.
Hann óskaði eftir því við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að hún myndi bíða með að útfæra aðgerðir byggðar á tillögum í minnisblaði hans, þar sem þær þyrfti að endurskoða vegna breyttrar stöðu.