Líftæknifyrirtækið Moderna ætlar í dag að sækjast formlega eftir samþykki Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna fyrir bóluefni sínu gegn COVID-19. Rúmlega vika er síðan lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNtech gerðu slíkt hið sama. Fyrirtækin hafa sótt eftir neyðarsamþykki stofnunarinnar og fáist það gæti bólusetning hafist um miðjan desember.
Bóluefni Moderna er talið veita vörn gegn kórónuveirunni í 94 prósent tilvika sem er langt umfram væntingar
Ef allt gengur að óskum og Matvæla- og lyfjastofnunin gefur Moderna og Pfizer grænt ljós er mögulegt að hægt verði að bólusetja tuttugu milljónir Bandaríkjamanna gegn COVID-19 fyrir árslok, segir í frétt Washington Post um tíðindin.
Þetta er fjórði mánudagurinn í röð sem færðar hafa verið jákvæðar fréttir af þróun bóluefna gegn sjúkdómnum.
„Þú vilt ekki fara fram úr sjálfum þér og fagna sigri en þetta ber öll merki þess að hafa mjög, mjög mikil áhrif á það að stöðva faraldurinn,“ segir Anthony Fauci, forstjóri smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna. „Áhrifaríkt bóluefni, ef það er tekið af mjög, mjög háu hlutfalli almennings, gæti kramið þennan faraldur rétt eins og gerðist með faraldur mislinga, bólusóttar og fleiri sjúkdóma.“
Þakkargjörðarhátíðin er nú í vikunni og óttast er að ferðalög og fjölskylduboð henni tengd verði til þess að kórónuveirusmitum muni fjölga hratt. Yfir 100 þúsund manns greinast daglega með veiruna í Bandaríkjunum og ef fjórða bylgjan brýst út á næstu dögum og vikum mun það, hvort sem bóluefni kemur í desember eða ekki, valda gríðarlegu álagi á heilbrigðiskerfið.
Áður en neyðarsamþykki lyfjafyrirtækjanna fæst á Matvæla- og lyfjastofnunin, sem og fleiri eftirlitsaðilar, eftir að rýna í öll rannsóknargögn sem til hafa orðið í þróunarferli bóluefnanna. Þar sem bóluefnin verða bæði af skornum skammti fyrst um sinn mun nefnd á vegum smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna leggjast yfir það hvaða hópar fari í forgang.
Bæði Moderna og Pfizer segjast verða tilbúin með marga skammta af bóluefninu þegar og ef lyfjastofnunin gefur grænt ljós.
Mörgum spurningum er enn ósvarað. Ein er sú hversu lengi vörnin sem bóluefnið gefur mun vara. Þá eru vísindamenn ekki á einu máli um hvort að bóluefni komi í veg fyrir að sá sem þau fær geti smitað aðra af veirunni.
Moderna mun einnig í dag sækjast eftir leyfum hjá Evrópsku lyfjastofnuninni og er einnig að vinna að því að fá leyfi í Bretlandi, Sviss, Kanada, Ísrael og Singapúr.