Blekið var enn blautt á minnisblaði sóttvarnalæknir, þar sem hann lagði til tilslakanir á takmörkunum, er smitum fór að fjölga á ný og það sem meira var, fjölgun smita meðal fólks sem ekki var í sóttkví við greiningu. Þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir samdi minnisblað sitt til heilbrigðisráðherra og sendi þann 25. nóvember höfðu sjö greinst með veiruna daginn áður. Og svipaður eða minni fjöldi dagana á undan. Allt virtist á réttri leið.
En svo kom skellurinn.
Daginn eftir að minnisblaðið hafði verið sent greindust skyndilega tuttugu manns með veiruna. 21 til viðbótar hafði greinst sólarhring síðar. „Eftir að minnisblaðið var skrifað þá hafa einmitt orðið verulegar breytingar á COVID-19 faraldrinum hér á landi,“ skrifar Þórólfur í nýju minnisblaði sem sent var ráðherra 29. nóvember, fjórum dögum eftir að bjartsýnin hafði verið ríkjandi og tilslakanir virst innan seilingar. Hópsýkingar hafa komið upp, skrifar Þórólfur. Ein þeirra, þótt fámenn hafi verið, kom upp á heimili Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra. Víðir greindist sjálfur með COVID-19 í síðustu viku. Hann smitaðist af eiginkonu sinni en enn hefur ekki tekist að rekja það smit.
18. nóvember tók gildi enn ein reglugerð um takmörkun á samkomum innanlands vegna COVID-19. Hún gildir til miðnættis í dag. Í ljósi þróunar faraldursins lagði Þórólfur til í nýjasta minnisblaði sínu að í stað tilslakana sem hann hafði viðrað nokkrum dögum áður að aðgerðir sem kveðið var á um í reglugerðinni frá 18. nóvember yrði framlengdar í að minnsta kosti viku. Að þeirri tillögu fór heilbrigðisráðherra í morgun.
En þetta er þó ekki nýjasta minnisblaðið hans Þórólfs til ráðherra því í gær, 30. Nóvember, sendi hann viðbætur þar sem hann bætir við nokkrum atriðum sem „geta haft þýðingu fyrir endanlega útfærslu reglugerðarinnar“.
Við rakningu á 91 tilfelli sem greindust á tímabilinu 20. til og með 27. nóvember þá kemur í ljós að 93 prósent þeirra greindust á höfuðborgarsvæðinu, 3 prósent á Norðurlandi, 2 prósent á Vestfjörðum og 1 prósent á Suðurnesjum, bendir Þórólfur á. „Öll smitin samanstanda af þremur stofnum veirunnar sem borið hafa uppi faraldurinn sem hér hefur geisað undanfarnar vikur og sum smitin má rekja beint til höfuðborgarsvæðisins. Í yfir 90% greindra tilfella á tímabilinu þá má jafnframt rekja smitin til nokkurra hópamyndana innan fjölskyldna, í fyrirtækjum og milli ótengdra aðila.“
Þá bendir hann ennfremur á að daglegur fjöldi þeirra sem hefur verið að greinast undanfarið hefur verið nokkuð stöðugur. Þetta þýðir að hans sögn að faraldurinn virðist vera í línulegum vexti og er það stutt af útreikningum vísindamanna við Háskóla Íslands sem hafa reiknað að smitstuðull faraldursins (R stuðull) er nú um 1-1,5.
„Í ljósi þess að mjög fá smit eru nú að greinast utan höfuðborgarsvæðisins þá kæmi til álita að mínu mati að beita minna takmarkandi aðgerðum á þeim svæðum,“ skrifar Þórólfur en bætir þó við: „Hins vegar er rétt að benda á að fyrir nokkrum vikum var einmitt minna íþyngjandi aðgerðum beitt utan höfuðborgarsvæðisins en fljótlega komu upp stórar hópsýkingar í kjölfarið einkum á Norðurlandi.“