Kínversk yfirvöld gáfu ekki upp opinberlega allar þær upplýsingar sem þær höfðu í upphafi faraldurs kórónuveirunnar í Wuhan fyrir rétt tæpu ári síðan. Tölur yfir smit voru til að mynda lægri en gögn yfirvalda sögðu til um. Sýnataka vegna veirunnar var í molum í landinu fyrstu vikurnar og flestir fengu neikvæða niðurstöðu. Mikill faraldur inflúensu geisaði snemma í desember í Hubei-héraði en yfirvöld í Kína hafa aldrei greint frá honum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttaskýringum CNN sem unnar eru upp úr gögnum frá heilbrigðisyfirvöldum í Hubei-héraði, sem mörg hver voru merkt sem trúnaðarmál, en lekið var til fjölmiðilsins. CNN segir að þó að í gögnunum standi ekki svart á hvítu að kínversk yfirvöld hafi vísvitandi haldið upplýsingum um þróun faraldursins frá umheiminum sé ljóst að útgefnar upplýsingar voru ekki í takti við þær upplýsingar sem yfirvöld höfðu á hverjum tíma. Gögnin sýna því að mati fréttamanna CNN að mörg feilspor voru stigin á fyrstu vikum faraldursins sem benda til kerfislægs vanda í upplýsingagjöf. Yfirvöld töldu ýmislegt vera í gangi sem þau upplýstu almenning ekki um.
Gögnin sem CNN hefur unnið upp úr eru sögð gluggi inn í það sem var að gerast í Wuhan á fyrstu vikunum eftir að veiran kom þar fyrst upp. Veiran sem síðar átti eftir að breiðast út um alla heimsbyggðina.
Þann 10. febrúar ávarpaði Xi Jinping, forseti Kína, starfsfólk sjúkrahúsanna í Wuhan sem þá hafði vikum saman barist við nýtt afbrigði kórónuveiru. Forsetinn var ekki á staðnum heldur í öruggri fjarlægð, í beinni útsendingu frá Peking. Hans hafði verið saknað af sjónarsviðinu. Hvar var forsetinn á meðan allt lék á reiðiskjálfi vegna útbreiðslu veirunnar? Þennan dag greindu yfirvöld í Kína frá 2.478 nýjum smitum og fjöldi smita komst þá yfir 40 þúsund á heimsvísu. Aðeins 400 höfðu verið greind utan meginlands Kína. Í fréttaskýringu CNN kemur hins vegar fram að þennan dag, 10. febrúar, voru smitin yfir helmingi fleiri en yfirvöld gáfu út. Þau höfðu þó undir höndum gögn sem sýndu að þau voru 5.918 en ekki 2.478. Ljóst þykir því að það kerfi sem var notað til að safna og dreifa upplýsingum um faraldurinn gerði það að verkum gerði minna úr útbreiðslunni en hún í raun og veru var.
Wuhan-skjölin sem CNN byggir fréttaskýringar sínar eru frá tímabilinu frá október árið 2019 til apríl í ár. Þau bera með sér, að því er fréttaskýrendur CNN segja, að óheilbrigður valdastrúktúr, þar sem fyrirmæli koma að ofan og undirmenn hafa lítið vald, hafi orðið til þess að upplýsingar um raunverulega stöðu faraldursins hafi ekki verið birtar almenningi. Þá hefur lélegur aðbúnaður í kínverska heilbrigðiskerfinu einnig sitt að segja.
Eitt af því mest sláandi sem sjá má í gögnunum er hversu langan tíma það tók fyrir fólk að fá greiningu. Þó að kínversk yfirvöld hafi ítrekað sagst hafa tök á faraldrinum, að skimað væri kerfisbundið og þjónusta veitt til sjúkra, er það þó staðreynd að samkvæmt skýrslu sem gerð var í Hubai-héraði í mars var biðtími sjúklinga frá fyrstu einkennum og þar til greining var gerð að meðaltali 23,3 dagar. Sérfræðingar sem CNN ræðir við segja að þetta gæti hafa orðið til þess að útbreiðslan var meiri, þar sem fólk var þá ekki í einangrun, og einnig gæti þetta hafa haft áhrif á framgang sjúkdómsins hjá sjúklingum þar sem þeir fengu enga meðferð.
Kínversk yfirvöld hafa ætíð neitað því að þau hafi gert mistök í upphafi faraldursins. Brugðist hafi verið við í tíma og öll viðbrögð framkvæmd fyrir opnum tjöldum. „Meðan allt var gert til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar þá brást Kína einnig við af ábyrgð gagnvart mannkyninu, þjóð sinni og hinu alþjóðlega samfélagi,“ sagði hvítbók sem nefnd á vegum kínverska ríkisins gaf út í júní.
Í gær, 1. desember, var nákvæmlega ár liðið frá því að fyrsti sjúklingurinn sýndi einkenni sjúkdómsins sem síðar átti eftir að fá nafnið COVID-19. Sá bjó í Wuhan-borg í Hubei-héraði. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birt var í læknatímaritinu Lancet fyrir nokkru.
En á sama tíma hófst skæður inflúensufaraldur í Hubei, faraldur sem tuttugu sinnum fleiri veiktust í miðað við árið á undan. Þetta varð til þess að auka enn við álagið á heilbrigðiskerfið sem var gríðarlegt fyrir. Af gögnunum sem CNN hefur undir höndum er erfitt að segja hvaða áhrif inflúensufaraldurinn hafði á útbreiðslu COVID-19 og ekkert í þeim bendir til þess að sýkingarnar tvær tengist. Þetta á einfaldlega enn eftir að rannsaka því hvergi hefur áður komið fram opinberlega að skæður faraldur inflúensu hafi geisað í héraðinu í byrjun desember á síðasta ári. Sérfræðingar sem CNN ræða við segja hins vegar að mögulega hafi fjöldi fólks sýkst af nýju kórónuveirunni á sjúkrahúsum sem voru yfirfull vegna inflúensunnar.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir að taka undir yfirlýsingar kínverskra yfirvalda um gang faraldursins. Hún hefur óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem finnast um hann í kínverska heilbrigðiskerfinu til að rannsaka til hlítar upptök hans en hefur enn sem komið er aðeins fengið að sjá brot af þeim.
Að minnsta kosti sextíu milljónir manna hafa smitast af kórónuveirunni og tæplega ein og hálf milljón hefur látið lífið vegna COVID-19.