„Kannski var gærdagurinn bara býsna góður dagur fyrir íslenska þjóð því að hann markar vonandi endalok pólitískra ráðninga dómara á Íslandi. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins staðfestir að brot dómsmálaráðherra var alvarlegt og gróf undan grundvallarréttindum um réttláta málsmeðferð. Nú dugar pólitískum öflum ekki lengur að borga bara umsækjendum sem gengið er fram hjá bætur úr samneyslunni á meðan hinir sitja þóknanlegir áfram.“
Þetta sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnatíma en hann spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu sem birtist í gær.
Hann sagðist vera sammála forsætisráðherra um að nú þyrfti að „horfa fram á veginn“ en Katrín viðhafði þau orð í samtali við Vísi í gær þegar hún var spurð út í niðurstöðuna.
Logi telur aftur á móti að „við lærum ekkert nema við horfum líka til baka“. Hann benti á að þegar forsætisráðherra var í stjórnarandstöðu hefði hún lýst yfir miklum áhyggjum af trausti til dómstóla og talið ábyrgð dómsmálaráðherra mikla.
„Þá studdum við bæði greinargott nefndarálit þar sem áformum dómsmálaráðherra var mótmælt og taldir upp miklir ágallar. Þeir ágallar voru meira og minna staðfestir og nefndir í yfirrétti Mannréttindadómstólsins í gær. Jafnframt var ríkisstjórninni boðinn frestur til að vinna málið betur og rökstyðja frávik frá lista hæfisnefndar. Því var hafnað.
Það dylst engum hvað hæstvirtum forsætisráðherra fannst um framgang málsins vorið 2017. Engu að síður myndaði hún ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum hálfu ári síðar með sama dómsmálaráðherra og árið þar á eftir, eftir að Hæstiréttur hafði dæmt ráðherra brotlegan, varði forsætisráðherra og meiri hluti stjórnarþingmanna dómsmálaráðherra vantrausti,“ sagði Logi.
Hann spurði hvort Katrín teldi að það hefðu verið mistök að verja ráðherra vantrausti á þeim tíma og jafnvel líka að mynda ríkisstjórn með flokki sem ætti mjög langa sögu um að seilast langt út fyrir eðlileg valdmörk.
Ísland ávallt staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu
Katrín svaraði og sagði að henni fyndist mikilvægt að taka af allan vafa um það að Ísland hefði ávallt staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu.
„Við erum aðilar að mannréttindasáttmálanum og hluti af þeirri skuldbindingu sem við höfum tekið á okkur með því að vera þar er að fara vandlega yfir niðurstöður þessa dómstóls og tryggja að framkvæmd þessara mála verði þannig að hún verði hafin yfir allan vafa til framtíðar. Þannig höfum við meðhöndlað dóma Mannréttindadómstólsins hingað til.
Hér er í dag til að mynda á dagskrá mál um rannsókn skattalagabrota sem beinlínis á rætur að rekja til niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Mér finnst mikilvægt að segja það algjörlega skýrt hér í sal Alþingis að við þurfum að taka þennan dóm alvarlega,“ sagði hún.
Telur þáverandi meirihluta hafa gert mistök
Katrín sagðist ekki hafa skipt um skoðun frá því að hún mælti fyrir nefndaráliti minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í júní 2017 þar sem hún hefði bent á nákvæmlega þau efnisatriði sem þarna voru tekin til skoðunar, það er að ráðherra hefði vissulega haft heimild til að víkja frá áliti hæfisnefndar, en til þess að uppfylla þá heimild með fullnægjandi hætti hefði hún þurft að sinna rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum, sömuleiðis að virða andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum.
„Ég tel að það hafi verið mistök hjá þáverandi meirihluta að taka ekki í þá útréttu sáttarhönd sem minnihlutinn rétti þá fram um að fresta málinu. En það var ekki gert. Og þannig fór um sjóferð þá.
En ég ætla líka að segja að þegar dómur undirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu féll á vormánuðum 2019 þá axlaði þáverandi dómsmálaráðherra ábyrgð á þessu máli, pólitíska ábyrgð, og sagði af sér. Þannig er það nú bara. Við hins vegar þurfum nú öll, Alþingi, Hæstiréttur, framkvæmdarvaldið, að fara vel yfir dóminn og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki,“ sagði hún.
Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins „leyft sér að tala niður“ MDE
Logi kom aftur í pontu og spurði af hverju ekki hefði verið axlað ábyrgð eftir að dómur Hæstaréttar féll á sínum tíma.
„Það er vissulega gott að heyra í hæstvirtan forsætisráðherra hérna og heyra tóninn. Hæstvirtur fjármálaráðherra lýsti því nefnilega yfir í gær að það væri óþarfi að hafa áhyggjur af orðspori Íslands vegna þessa máls. En hann hafði svo sem heldur ekki áhyggjur af orðspori okkar þegar Panamaskjölin voru birt, þegar Ísland lenti á gráum lista eða þegar vísbendingar voru um gróft misferli stórfyrirtækis í Namibíu,“ sagði hann og spurði Katrínu hvort hún hefði áhyggjur af þessu.
„Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í gegnum þetta ferli gert lítið úr þessu máli og jafnvel leyft sér að tala niður Mannréttindadómstólinn. Fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur jafnvel gengið svo langt að velta því upp hvort Ísland eigi að segja sig frá honum,“ sagði hann enn fremur.
Þá spurði hann hvort forsætisráðherra hefði áhyggjur af orðspori Íslands vegna þessa máls og fyndist henni tilefni til þess að ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir að Mannréttindadómstóllinn skipti Íslendinga máli og að þeir myndu í öllu virða niðurstöðu hans.
Hefur ekki áhyggjur af orðspori Íslands
Katrín sagði í kjölfarið að Logi þyrfti ekkert að efast um það, ekki frekar en nokkur annar ef því væri að skipta, að Ísland tæki skuldbindingar sínar gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu alvarlega.
„Ég fór yfir mál sem eru á dagskrá þingsins í dag sem snúast um nákvæmlega það að mæta gagnrýni sem komið hefur fram hjá Mannréttindadómstóli Evrópu varðandi tvöfalda refsingu í skattalagabrotum og skattrannsóknum. Sýnir það ekki eindreginn vilja til þess að bregðast við? Ég tel að það sé enginn vafi á því, herra forseti. Og af því að háttvirtur þingmaður spyr þá hef ég heldur ekki áhyggjur af orðspori Íslands. Ég hef engar áhyggjur vegna þess að það sem skiptir máli er hvernig við bregðumst við slíkum dómi, hvaða lærdóma við drögum af honum. Og ég tel að það geti verið ýmsir lærdómar.
Ég get líka sagt: Það er mín eindregna skoðun að það hafi verið rétt að skjóta málinu til yfirdeildar af því að ég tel að sá dómur sem féll í gær hafi dregið úr réttaróvissu og skýrt þessi mál miklum mun betur en sá dómur sem féll í undirdeildinni á sínum tíma,“ sagði hún.