„Hugleiðingar einstakra lögreglumanna í Namibíu ráða engu um þær heimildir sem gilda almennt um framsal milli ríkja í tengslum við rekstur sakamála. Namibísk yfirvöld hafa engar lagaheimildir til að krefjast framsals yfir íslenskum ríkisborgurum þar sem enginn samningur er til staðar milli ríkjanna um framsalið,“ segir í yfirlýsingu sem birt er á vef Samherja í dag.
Þar segir einnig að namibísk stjórnvöld hafi „engar tilraunir gert til að hafa afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum félaga tengdum Samherja,“ en tilefni yfirlýsingarinnar er fréttaflutningur RÚV af eiðsvarinni yfirlýsingu sem rannsóknarlögreglumaður hjá namibísku spillingarlögreglunni ACC lagði fram við namibískan dómstól nýlega.
Frétt RÚV birtist á þriðjudagskvöld. Í henni kemur fram að rannsóknarlögreglumaðurinn hafi ritað, í 63 blaðsíðna langri yfirlýsingu sinni til dómstólsins, að namibíska lögreglan hefði verið að reyna að grafast fyrir um dvalarstað tveggja nafngreindra starfsmanna Samherja sem stjórnað hefðu fyrirtækjum tengdum Samherja í Namibíu, auk annarra, í því skyni að fá þá framselda.
Í fréttinni kom jafnframt fram að namibíska lögreglan hefði sent bréf til fulltrúa Interpol í Namibíu í maí til þess að óska eftir hjálp við að hafa uppi á tíu Íslendingum sem tengjast Samherja. Fjallað var um hjálparbeiðni namibískra yfirvalda til Interpol í namibískum og íslenskum fjölmiðlum í byrjun júní.
Enginn verið á flótta undan réttvísinni
„Mikilvægt er að fram komi að enginn af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum Samherja og tengdra félaga hefur verið eftirlýstur af Interpol eða verið á flótta undan réttvísinni, raunar þvert á móti. Hvorki namibísk stjórnvöld né Interpol hafa óskað eftir því að ná tali af umræddum starfsmönnum. Virðist Interpol því ekki hafa á neinn hátt brugðist við áðurnefndu bréfi,“ segir í yfirlýsingu Samherja um þetta efni.
Þar segir enn fremur að enginn núverandi eða fyrrverandi starfsmanna félaga í samstæðu Samherja hafi réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn í Namibíu og fullyrt er að enginn þeirra hafi viðhaft háttsemi gæti réttlætt það. „Ráðagerðir lögreglumannsins sem gerðar voru að fréttaefni eru því tilhæfulausar,“ segir í yfirlýsingu Samherja.
Ríkissaksóknari Namibíu sagður með Samherja í sigtinu
Namibískir fjölmiðlar hafa undanfarna daga flutt fréttir af framgangi Samherjamálsins þar í landi.
Blöðin Namibian Sun og The Namibian hafa bæði sagt frá því að Martha Imalwa, ríkissaksóknari Namibíu, hafi greint frá því í eiðsvarinni yfirlýsingu til réttarins í Windhoek að til standi að leggja fram ákærur á hendur félögum tengdum Samherja í landinu og stjórnendum þeirra.
Yfirlýsingin var send til dómstólsins nýlega vegna beiðni um kyrrsetningu eigna hjá fjölmörgum aðilum í Namibíu, þar af sex félögum tengdum Samherja, sem sett var fram vegna rannsóknar á vafasömum milliríkjasamningi á milli Namibíu og Angóla, sem gerði félögum tengdum Samherja mögulegt að komast yfir hrossamakrílkvóta.