Íslensk stjórnvöld segja að gera megi ráð fyrir því að bólusetning gegn COVID-19 hefjist fljótlega eftir áramót og að markmiðum bólusetningar verði vonandi náð strax á fyrsta ársfjórðungi, en markmiðið er að ná hjarðónæmi sem hindrar frekari útbreiðslu faraldurs.
„Til að ná hjarðónæmi er gert ráð fyrir að bólusetja þurfi a.m.k. helming þjóðarinnar. Hér er gert ráð fyrir að um 75% landsmanna verði bólusettir,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu sem send var út skömmu fyrir hádegi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hvatti landsmenn til raunhæfrar bjartsýni varðandi tímasetningu bólusetningar við COVID-19 hér á landi á upplýsingafundi almannavarna í morgun og minnti á að mikilvægt væri að viðhafa áfram sóttvarnir sem stundaðar hafa verið þar til stór hluti þjóðarinnar hefði verið bólusettur.
Þegar búið að tryggja bóluefni fyrir 200.000 manns
Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir frá því að skrifað verði undir samning um kaup Íslands á bóluefni Pfizer í næstu viku og að það bóluefni muni duga fyrir 85 þúsund einstaklinga. Einnig hafi Ísland þegar gert samning um kaup á bóluefni AstraZeneca, sem dugar fyrir 115 þúsund einstaklinga.
Lyfjastofnun Evrópu er með umsóknir þessara tveggja framleiðenda um skilyrt markaðsleyfi til meðferðar þessa dagana. Von er á niðurstöðu um bóluefni Pfizer 29. desember og um bóluefni AstraZeneca í janúar.
Þann 12. janúar fjallar Lyfjastofnun Evrópu svo um markaðsleyfi fyrir bóluefnið frá Moderna, en fyrir liggja drög að samningi Íslands um kaup að því bóluefni og einnig bóluefni sem Johnson & Johnson er að þróa og minni fregnir hafa borist af en hinum þremur.
„Gera má ráð fyrir að fljótlega eftir að markaðsleyfi fæst fyrir bóluefni frá fyrirtæki sem Ísland er með beinan samning við, verði fyrstu skammtar fluttir til landsins. Það er þó fyrirséð að bóluefni sem fá markaðsleyfi verði deilt milli ríkja og komi því í takmörkuðu magni til að byrja með, þ.e. að ekki komi allt það magn sem samið hefur verið um í einu lagi,“ segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.
Þar segir einnig að bólusetja þurfi fólk tvisvar og að gert sé ráð fyrir að bólusett verði með tveggja til þriggja vikna millibili. Eftir það líði allt að mánuður þar til viðkomandi einstaklingur sé kominn með mótefnasvar, en það geti verið misjafnt eftir bóluefni.