Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja og um árabil annar stærstu eigenda útgerðarfyrirtækisins, sendu tölvupóst til framkvæmdastjóra Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA), sem veitir Edduverðlaunin ár hvert, þann 17. janúar árið 2019, og fór fram á að Helgi Seljan yrði sviptur Edduverðlaunum. Helgi hafði hlotið verðlaunin sem besti sjónvarpsmaður landsins árin 2016 og 2017, en almenningur kýs þann sem hlýtur þau.
Frá þessu er greint í Stundinni í dag.
Þar segir að í tölvupósti Kristjáns, sem bar yfirskriftina „Helgi Seljan“ hafi staðið: „Sæl. Er svona fölsun fréttamanns tilefni til að draga verðlaun hans tilbaka?“ Tengd við póstinn var aðsend grein eftir Elínu Björgu Ragnarsdóttur, lögfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka fiskframleiðenda, sem birst hafði í Morgunblaðinu.
Í greininni vændi hún Kastljós og Helga um slæleg vinnubrögð í þætti um húsleit hjá Samherja vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál sem sýndur var í lok mars árið 2012. ÍKSA vildi ekki svara spurningum Stundarinnar um málið.
Sendi bréf á þekktan háskóla
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem greint er frá því opinberlega að Kristján hafi beitt sér gegn nafngreindu fólki sem hafði fjallað með gagnrýnum hætti um hann eða sjávarútvegsmál.
Í maí 2014 greindi Kjarninn frá könnun sem sýndi að sjötti hver háskólamaður á Íslandi hafði komið sér hjá því að tjá sig við fjölmiðla vegna ótta við viðbrögð valdafólks úr stjórnmála- og efnahagslífi. Þar kom einnig í ljós að meirihluti háskólamanna taldi að akademísku frelsi fræði- og vísindamanna á Íslandi stafi ógn af gagnrýni eða hótunum frá valdafólki í stjórnmálum, efnahags- og atvinnulífi.
Skömmu síðar birti Kjarninn umfjöllun eftir Björn Gíslason þar sem sagt var frá því hvernig Jón Steinsson, þá dósent í hagfræði við Columbia-háskólann í New York sem flutti sig yfir til Berkeley-háskólans í fyrra, hefði fengið að finna fyrir því að skrifa reglulega um hitamál samfélagsins í íslenska fjölmiðla, sérstaklega um fiskveiðistjórnunarkerfið, auðlindanýtingu og skattamál.
Þar nefndi Jón dæmi af áhrifamanni í íslensku atvinnulífi sem hafi nokkrum árum áður sent deildarforseta Columbia-háskóla bréf þar sem hann gerði athugasemdir við skrif Jóns í íslenska miðla.
Umrædd skrif voru skoðanapistill sem birtist á Pressunni 10. maí 2011 þar sem Jón gagnrýndi orð útvegsmanna um að sérstakt auðlindagjald væri í raun landsbyggðarskattur. „Í dag fá eigendur útgerðarfyrirtækja einkaafnotarétt af auðlindum sjávar nánast án endurgjalds,“ sagði í greininni eftir Jón. „Allur auðlindaarðurinn í sjávarútvegi rennur því til eigenda útgerðarfyrirtækja. Um þessar mundir er auðlindaarðurinn líklega í kringum 45 ma. kr. á ári. Stærstur hluti þessa fjár fer í lúxuslíf og gæluverkefni útgerðarmanna, svo sem kampavín og kavíar í útlöndum, þyrlur og bílaumboð og það að dekka taprekstur Morgunblaðsins. En vitaskuld eru einstaka brauðmolar sem detta fyrir fæturna á venjulegu fólki á landsbyggðinni. Útgerðarmenn styrkja til dæmis íþróttafélög víða á landsbyggðinni.“
Jón vildi ekki greina frá því hver þessi maður væri við Kjarnann árið 2014 en sagði deildarforsetann hafa sagt að augljóslega myndi hann ekki gera neitt í málinu enda nyti Jón frelsis sem háskólamaður til þátttöku í opinberri umræðu. „Ef þessir menn reyna að hafa áhrif á yfirmann hagfræðideildar í Columbia, sem þeir hafa augljóslega engin tök á, þá getur maður bara ímyndað sér hvernig það er þegar einhver í háskólum á Íslandi skrifar eitthvað svona.“
Jón sagðist ekki hafa upplifað viðlíka hótanir eða gagnrýni eftir að hafa tjáð sig um önnur mál.
Í bókinni „Ekkert að fela – Á slóð Samherja í Afríku“, eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stéfán Aðalstein Drengsson, sem kom út fyrir rúmu ári, var greint frá því hver áhrifamaðurinn er í fyrsta sinn opinberlega. Um var að ræða Kristján Vilhelmsson.
Þar var líka vitnað í bréfið sem Kristján skrifaði. Í því stóð meðal annars: „„Í krafti stöðu minnar sem formaður stjórnar Útvegsmannafélags Norðurlands beini ég þeirri spurningu til þín hvort slíkur pólitískur áróður samræmist siðareglum Columbia-háskóla.“
Starfsmaður Samherja áreitti Helga
Kjarninn greindi frá því 27. ágúst síðastliðinn að Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, sem starfaði hefur fyrir Samherja árum saman, hefði allt frá því að umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um viðskiptahætti Samherja í Namibíu birtist þann 12. nóvember á síðasta ári verið tíður gestur á Kaffifélaginu, kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, einatt til að hitta á og ná tali af Helga Seljan – en þar hittist hópur fólks iðulega á morgnana til að spjalla um daginn og veginn.
Kjarninn greindi enn fremur frá því að Jón Óttar hefði ítrekað sent Helga skilaboð, bæði í gegnum SMS og Facebook-reikning eiginkonu sinnar. Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni sem fjallað hefur um Samherja, fékk einnig send skilaboð þar sem honum var hótað „umfjöllun“.
Jón Óttar sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunarinnar og sagði að það hefði verið rangt af sér að senda Helga SMS-skilaboð. Þau endurspegluðu dómgreindarbrest af hans hálfu og hann sagðist sjá mikið eftir að hafa sent þau. Jóni Óttari fannst miður ef þessi gagnrýniverða háttsemi hans yrði á einhvern hátt bendluð við Samherja „og starfsfólk þess því hún er alfarið á mína ábyrgð“.
Félög Jóns Óttars fengu um 135 milljónir króna í greiðslur frá Samherja yfir nokkurra ára tímabil vegna vinnu þeirra við Seðlabankamálið svokallaða. Samherji gerði kröfu um að Seðlabanki Íslands myndi greiða þann kostnað í skaðabótamáli sem fyrirtækið höfðaði á hendur bankanum. Það mál tapaðist.