Frumvarp um milljónamæringa-skattinn, eins og hann er kallaður, var samþykkt á argentínska þinginu í gær. 42 þingmenn stuttu hinn nýja skatt en 26 voru á móti.
Skatturinn verður aðeins lagður á stóreignafólk sem á eignir metnar á 200 milljónir pesósa eða meira (um 315 milljónir króna). Um 12 þúsund manns í landinu falla í þennan hóp.
Í kringum 1,5 milljónir tilfella af kórónuveirunni hafa greinst í Argentínu og talið er að um 40 þúsund manns hafi látist vegna COVID-19.
Argentína hefur því orðið verr úti en flestar aðrar þjóðir í faraldrinum. Íbúar landsins eru um 45 milljónir. Til ýmissa harðra aðgerða hefur verið gripið til að hefta útbreiðsluna. Það hefur haft áhrif á efnahagslífið sem var veikburða áður en kórónuveiran kom til sögunnar. Þar eru margir undir fátæktarmörkum, skuldir ríkisins eru gríðarlegar og atvinnuleysi útbreitt. Efnahagskreppa hófst í Argentínu árið 2018 og hefur aðeins dýpkað síðustu mánuði.
Nýi skatturinn mun leggjast á um 0,8 prósent landsmanna. Þessi hópur mun þurfa að greiða skatta af eignum sínum, bæði eignum í Argentínu og utan landsteinana. Forseti landsins, Alberto Fernandez, vonast til þess að þetta skili 300 milljörðum pesósa í ríkiskassann til að standa straum af kostnaði við lækningavörur og efnahagsaðgerðir ýmis konar.
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar segja milljónamæringa-skattinn hins vegar eiga eftir að fæla fjárfesta frá landinu.