Lyfjafyrirtækið Pfizer sem þróað hefur bóluefni gegn COVID-19 ásamt þýska líftæknifyrirtækinu BioNtech hefur sótt um neyðarleyfi til dreifingar efnisins á Indlandi. Stjórnvöld á Indlandi hafa tryggt sér yfir milljarð skammta af bóluefni hjá fyrirtækjum sem eru með slík í þróun.
Pfizer er bandarískt lyfjafyrirtæki og hefur þegar fengið leyfi breskra yfirvalda til að dreifa bóluefni sínu þar. Samkvæmt heimildum CNN hefur fyrirtækið nú sótt um neyðarleyfi, sem gefin eru út þegar mikið liggur við að koma lyfi á markað, til lyfjastofnunar Indlands. Pfizer hefur ekki staðfest fregnirnar en haft er eftir fulltrúum stjórnvalda á Indlandi í frétt Reuters að þó að þau sækist eftir innflutningi á bóluefnum Pfizer og Moderna ætli þau sér aðallega að nota bóluefni sem verið er að þróa og prófa á Indlandi.
Bóluefni Pfizer og BioNtech er talið veita góða vörn gegn kórónuveirunni en gallinn á því er sá að það þarf að geyma í að minnsta kosti 70 stiga frosti sem mun gera dreifingu þess og geymslu flókna og erfiða í löndum á borð við Indland.
Frá upphafi faraldursins hafa yfir 9,5 milljónir manna greinst með COVID-19 á Indlandi og hafa þau hvergi greinst fleiri ef Bandaríkin eru undanskilin. Tæplega 140 þúsund manns hafa látist vegna sjúkdómsins í landinu.