Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að henni þætti mjög miður að heyra að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, treysti sér ekki til að taka afstöðu til þess hvort Reykjavíkurborg ætti rétt á framlögum úr Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Lilja sagðist ekki kunna að meta málflutning sem aðgreinir fólk í Reykjavík frá íbúum landsbyggðarinnar. Við værum öll í þessu saman.
Forsaga málsins er sú að Reykjavíkurborg telur að hún hafi verið útilokuð frá því að hljóta framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árum saman og að sú útilokun sé bæði andstæð lögum og stjórnarskrá. Hún fer fram á 8,7 milljarða króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna framlaga sem hún fékk ekki á árunum 2015 til 2019.
„Þær risastóru áskoranir sem sveitarfélög landsins standa frammi fyrir vegna kórónuveirufaraldursins hafa varpað ljósi á þann leiða sið ríkisstjórnarinnar að nálgast málefni sveitarfélaga gjarnan út frá hefðbundnum pólitískum átakalínum frekar en hagsmunum íbúa,“ sagði Hanna Katrín og spurði ráðherra út í orð samráðherra hennar, Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins, vegna kröfu Reykjavíkurborgar um tekjujöfnunarframlag.
Sigurður Ingi sagði á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þann 18. nóvember síðastliðinn að 8,7 milljarða krafa Reykjavíkurborgar væri fráleit og lýsti henni sem óskiljanlegri aðför borgarinnar.
Menntamálaráðherra er „jú þingmaður Reykvíkinga“
Hanna Katrín sagði að það væri ekkert sem benti til annars en að krafa borgaranna væri fullkomlega réttmæt með tilliti til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. „Það lítur út fyrir að á vakt þessarar ríkisstjórnar og allt þar til lögunum var breytt að gefnu tilefni á síðasta ári hafi Reykjavíkurborg verið útilokuð með ólögmætum hætti frá framangreindum jöfnunarsjóðsgreiðslum.“
Hún vildi því spyrja Lilju út í þetta mál. „Þeir fjármunir sem þarna eru undir snúast að stórum hluta um grunnskólamenntun í Reykjavík og menntamálaráðherra er jú þingmaður Reykvíkinga. Þetta snýst um rekstur grunnskólanna þar og stuðning við nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál.
Er að mati hæstvirts ráðherra réttlætanlegt að stilla þessu máli upp sem baráttu landsbyggðar og höfuðborgarinnar? Við höfum sameiginlega hagsmuni af því að hér þrífist öflug byggð á landinu og sterk höfuðborg sem getur sinnt þessum skyldum sínum. Og við höfum líka hagsmuni af því að framkvæmd laga fari ekki eftir hentistefnu stjórnmálamanna hverju sinni. Mig langar til að fá fram afstöðu hæstvirts ráðherra þingmanns Reykvíkinga til þessara mála yfir höfuð,“ sagði Hanna Katrín.
Vildi ekki „fara út í það á þessum tímapunkti hvernig dæmið lítur nákvæmlega út“
Lilja svaraði þingmanninum en hún vildi benda á mikilvægi þess að Íslendingar stæðu saman í þessari baráttu um að styrkja menntakerfið. „Að menntun sé fyrir alla og við vinnum að því sameiginlega. Hvað kröfu Reykjavíkurborgar og jöfnunarsjóðinn varðar þá er það skiljanlegt og það eru allir að reyna að gera hvað þeir geta til að tryggja sinn rekstrargrunn. Ég mun ekki fara út í það á þessum tímapunkti hvernig dæmið lítur nákvæmlega út.
Ég er hins vegar algerlega sammála háttvirtum þingmanni um að það skiptir öllu máli að rekstur, og allt sem sveitarfélögin eru að gera, sé fullkomlega sjálfbær. Þar þurfa allir að huga að því hvernig reksturinn gengur. Við höfum unnið mjög mikið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga í þessum kórónuveirufaraldri. Við höfum unnið að reglum um skólahald, það hefur verið gríðarlega mikið samráð við alla fræðslustjórana. Við höfum einnig unnið að heildarstefnu um menntamál, menntastefnu til ársins 2030. Við höfum einnig unnið að hvítbók um málefni barna með annað móðurmál en íslensku og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur verið að fara í tengjast auðvitað sveitarfélögunum líka. Við skulum hafa það alveg á hreinu,“ sagði Lilja.
Óumdeilt að Reykjavík drægi vagninn
Hanna Katrín kom aftur í pontu og sagði að henni þætti mjög miður að heyra að ráðherra treysti sér ekki til að taka afstöðu til þessa máls. „Vegna þess að þetta er einfalt. Er ríkisstjórnin og hæstvirtur ráðherra, þingmaður Reykvíkinga búin að fara þannig ofan í þessi mál að hún geti svarað því hvort að hún telji að hér sé verið að brjóta á Reykjavíkurborg. Annars vegar lög og hins vegar hvort að orð samgönguráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, mjög mjög þung og að mínu mati ómakleg orð í garð stærsta sveitarfélags landsins, hvaða skoðun hún hafi á því?“
Hún sagði að óumdeilt væri að Reykjavík drægi vagninn þegar kemur að málefnum félagsþjónustu ýmiss konar. Hún benti enn fremur á að þetta kæmi fram í skýrslu um samantekt sveitarfélaga og í umfjöllun Kjarnans.
Kjarninn fjallaði um málið á dögunum en í þeirri umfjöllun kom fram að íbúar í Reykjavík borguðu hver og einn sjö sinnum hærri fjárhæð í fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda en íbúar á Seltjarnarnesi. Þeir greiddu tvöfalt meira fyrir alla veitta félagsþjónustu en íbúar í Kópavogi og Garðabæ. Og drægju líka vagninn þegar kemur að uppbyggingu á húsnæði fyrir lágtekjuhópa.
„Ég bið hæstvirtan ráðherra um að gefa upp afstöðu menntamálaráðherra hæstvirts til þessara orða, vegna þess að þetta er verulega skaðlegt þegar kemur að samskiptum sveitarfélaga landsins og öflugra stórra sveitarfélaga við ríkisvaldið og ég bendi á að hæstvirtur samgöngumálaráðherra sagði einfaldlega að hér væri Reykjavík að brjóta á minni sveitarfélögum með því að ætla að sækja pening þangað þegar það er samkvæmt lögum rangt,“ sagði hún.
„Við erum öll í þessu saman“
Lilja svaraði í annað sinn og sagðist langa að fara yfir þær efnahagsaðgerðir sem ríkisstjórnin hefði farið í. „Ég ætla til að mynda að benda á háskólastigið og framhaldsskólastigið, og stærstu framhaldsskólarnir og háskólarnir eru allir hér í Reykjavík. Við erum að bæta milljörðum og aftur milljörðum bara í menntakerfið og svo sannarlega nýtur Reykjavíkurborg, þar sem ég er þingmaður, ágóða og ávinnings af því. Við erum algerlega að ná utan um framhaldsskólana okkar með því að bæta í. Menntakerfið er að taka á móti 3.500 nýjum nemendum á háskóla- og framhaldsskólastiginu og allt þetta nýtist auðvitað stærsta sveitarfélaginu, Reykjavíkurborg,“ sagði hún.
Það væri af og frá, og afskaplega ómálefnalegt af Hönnu Katrínu, að segja að ríkisstjórnin væri ekki að styðja við öll sveitarfélögin.
„Ég ætla að nefna eitt. Það sem hefur verið að gerast er að ríkisstjórnin hefur aukið skuldir sínar en hún er að fara úr 20 prósent af landsframleiðslu í yfir 60 prósent. Auðvitað nýtist það öllum í landinu. Ég kann ekki að meta málflutning sem er alltaf á þann veg að segja: Það eru einhverjir sem búa í Reykjavík og einhverjir sem búa á landsbyggðinni. Við erum öll í þessu saman,“ sagði hún að lokum.