„Við þjáumst öll saman í þeim upplýsingaskorti,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um stöðu á leyfisveitingum evrópsku lyfjastofnunar á bóluefnunum sem nú er beðið eftir. „En það er algjört lykilatriði að sem flestir fari í bólusetningu,“ sagði hann á upplýsingafundi almannavarna í dag. Bólusetja þurfi að minnsta kosti 60-70 prósent þjóðarinnar, til að bæla faraldurinn almennilega niður. „Ef við náum því hlutfalli þá munum við enn geta fengið litlar hópsýkingar. Þannig að það er algjörlega lykilatriði að sem flestir taki þátt og við munum auðvitað leggja áherslu á það. En það er erfitt að ræða um það á þessari stundu þegar við vitum ekki allar niðurstöður á rannsóknum á bóluefnunum.“
Þórólfur sagði að helgin hefði verið nokkuð góð hvað nýgreiningar á COVID-19 varðar. Aðeins sjö greindust innanlands í gær og allir voru þeir einstaklingar í sóttkví. „Þróunin er jákvæð en það er rétt að minna á að það voru færri sýni tekin um helgina en dagana á undan,“ sagði hann að tölur næstu daga myndu skýra betur stöðu faraldursins.
„Það er held ég ljóst að þó að þróunin sé jákvæð þarf lítið að gerast svo að við fáum afturkipp,“ varaði hann við. „Ég vil þannig áfram hvetja alla sem finna fyrir minnstu einkennum að fara í sýnatöku – það er þungamiðjan í því að sjá hvað er að gerast í faraldrinum.“
Raðgreiningar á veirusýnum síðustu daga sýna að franska veiran svokallaða, sem kom hingað til lands með frönskum ferðamönnum í ágúst, er enn sá stofn sem er að greinast helst þessa dagana. „Við héldum á tímabili að hann væri að deyja út en hann virðist aftur hafa náð sér á strik,“ sagði Þórólfur.
Núverandi takmarkanir á samkomum og starfsemi gilda til og með miðvikudags og mun sóttvarnalæknir senda heilbrigðisráðherra nýjar tillögur í dag eða á morgun sem þá munu taka gildi á fimmtudag, fari ráðherra að hans ráðleggingum. Hann sagði að taka þyrfti marga þætti til greina þegar ákvörðun um takmarkanir er tekin. Nýgengi smita innanlands og hversu margir eru að greinast utan sóttkvíar eru t.d. atriði sem taka þarf til greina. Þá verður einnig að taka tillit til ástandsins á sjúkrahúsunum og hvaða stefnu faraldurinn er að taka erlendis.
„Það er þó í mínum huga ljóst að við þurfum að fara mjög hægt í allar tilslakanir,“ sagði Þórólfur sem vildi ekki fjalla um mögulegar tillögur á þessum tímapunkti. „Við verðum að virða áfram allar sóttvarnareglur – við þurfum að vera tilbúin að halda lágstemmda aðventu, jól og áramót í ár. Þar sem við þurfum að vera að tilbúin að hitta aðeins okkar nánasta fólk og virða einstaklingsbundnar sóttvarnir. Það eru þessi atriði sem hafa skilað okkur góðum árangri og við þurfum áfram að viðhafa til að viðhalda árangri.“
Hvað varðar samkomur helgarinnar, þar sem sumir komu saman til að skera út laufabrauð og baka, svo dæmi séu tekin, sagði Þórólfur að allir yrði að fara varlega og halda sig innan „sinnar búbblu“ – þ.e. ekki stofna til margra samkoma með fólki úr ólíkum áttum.
Styttist í bóluefni en biðin ekki á enda
Enn er ekki ljóst hvenær bóluefni mun koma hingað til lands og hversu mikið magn við munum fá í fyrstu. „Við erum enn að undirbúa komu þess og hvernig staðið verður að bólusetningu þegar þar að kemur. Við Vitum ekki hvenær það kemur eða hversu mikið við fáum í hverri sendingu. Þetta skýrist væntanlega þegar lengra líður á mánuðinn.“
Hann sagðist ekki sjá ástæðu til að bólusetja fólk sem hefur fengið COVID-19. Hins vegar þurfi það fólk ekki að óttast að bólusetningin myndi valda frekari aukaverkunum. Spurður hvort að fólk sem grunar að það hafi fengið sjúkdóminn ætti að fara í mótefnamælingu áður en að bólusetningu kemur segir Þórólfur það koma sterklega til greina. Það sé þó undir hverjum og einum komið.
Þórólfur ítrekaði að bólusetning verður ekki skylda og að hún verði gjaldfrjáls.