Fjöldatakmörkun mun áfram miðast við 10 manns þar til 12. janúar næstkomandi, með ákveðnum undantekningum, samkvæmt væntanlegri reglugerð heilbrigðisráðherra varðandi sóttvarnaráðstafanir í samfélaginu sem tekur gildi á fimmtudag, 10. desember. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Ríkisstjórnin fundaði um tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á fundi sínum í morgun og samþykkti ákveðnar tilslakanir á gildandi sóttvarnaráðstöfunum í samfélaginu.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem er dagsett 6. desember, segir að sæmileg tök hafi náðst á faraldrinum en jafnframt megi segja að staðan sé viðkvæm, þar sem brugðið geti til beggja vona. Fram kemur að nýjasta mat vísindamanna við Háskóla Íslands bendi til þess að svokallaður smitstuðull veirunnar hér á landi sé um 1,5.
„Þetta styður þá skoðun að staðan á þessari stundu er viðkvæm
og lítið þarf til að hleypa faraldrinum aftur í uppsveiflu,“ segir Þórólfur í minnisblaðinu. Einnig segir hann að þær sóttvarnaaðgerðir sem hafi verið í gangi hafi að hans mati skilað góðum árangri sem auðveldlega gæti tapast verði slakað yrði of mikið á yfir jólahátíðina.
Sund, verslun og veitingaþjónusta
Á meðal helstu breytinga er það að sund- og baðstaðir mega hafa opið. Rétt eins og þegar sundlaugar opnuðu í fyrsta sinn eftir lokun í fyrstu bylgju faraldursins verður þeim heimilt að taka við 50 prósent af hámarksgestafjölda.
Veitingastaðir mega taka á móti 15 manns í hvert rými og fá að hafa opið til kl. 22, en mega þó ekki taka á móti nýjum gestum eftir kl. 21 á kvöldin.
Allar verslanir mega taka á móti 5 manns á hverja 10 fermetra, en þó að hámarki 100 manns.
Börn á grunnskólaaldri undanþegin takmörkunum
Ákvæði í reglugerðinni sem snúa að fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu munu ekki taka til barna sem fædd eru 2005 og síðar.
Þetta er töluvert mikil breyting frá því sem nú er.
Samkvæmt þeirri reglugerð sem rennur út á morgun eru einungis börn fædd 2015 eða síðar undanþegin fjöldatakmörkun og nálægðarmörkum og einungis börn fædd 2011 eða síðar undanþegin grímuskyldu úti í samfélaginu.
Afreksfólk má æfa á ný en líkamsræktarstöðvar áfram lokaðar
Íþróttaæfingar fullorðinna íþróttamanna, sem stunda íþróttir innan vébanda ÍSÍ í efstu deildum, verða heimilar á ný á fimmtudag, bæði með og án snertingu. Æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum verða sömuleiðis heimilar.
Áfram verða æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta þó óheimilar. Líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.
Varðandi íþróttir almennings, þá verður öllum heimilt að stunda skipulagðar æfingar utandyra sem krefjast ekki snertingar.
Sviðslistir heimilar á ný
Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir verða heimilir með allt að 30 manns á sviði, bæði æfingar og sýningar. Heimilt verður að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum og þeim skylt að nota grímu og allt að 100 börnum fæddum 2005 og síðar. Hvorki hlé né áfengissala verður heimil. Sæti skulu númeruð og skráð á nafn.
Fimmtíu manns mega koma til jarðarfara
Hámarksfjöldi í jarðarfarir verður 50 manns á tímabilinu, frá 10. desember til 12. janúar.
Skólastarf að mestu óbreytt
Reglugerð um takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar verður að mestu óbreytt til áramóta, samkvæmt tilkynningu yfirvalda, en nýjar reglur um skólastarf eiga að taka gildi 1. janúar 2021 og verða þær kynntar fljótlega.
Þó hefur verið ákveðið að frá og með 10. desember verði ákvæði um bæði blöndun og hámarksfjölda leikskólabarna felld brott. Með þessu móti eru leikskólar sagðir geta aðlagað starfsemi sína betur yfir hátíðirnar þar sem barnahópar eru gjarna sameinaðir milli deilda eða jafnvel leikskóla.
Einnig er sú breyting gerð nú að lestrarrými í framhaldsskólum og háskólum geta opnað fyrir allt að 30 nemendur.