„Hugmyndin er að búa þarna til samfélag í sátt og samlyndi borgaryfirvöld, Minjastofnun og ekki síst við nærumhverfið,“ segir Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri Þorpsins vistfélags sem hefur fengið samþykkt kauptilboð í brunarústirnar á Bræðraborgarstíg 1 sem og hús númer 3 við götuna sem var í eigu sömu aðila, félagsins HD verks ehf. Brunarústirnar hafa nú staðið í að verða hálft ár með tilheyrandi slysahættu og óþef. Ef allt gengur að óskum gæti niðurrif þeirra hafist í byrjun næsta árs og skipulagsvinna og framkvæmdir í kjölfarið.
Kaup Þorpsins vistfélags eru þannig til komin að hópur kvenna sem kallar sig Femínistar 60+ kom að máli við forsvarsmenn þess og spurði hvort að þau gætu unnið í sameiningu að uppbyggingu íbúðakjarna í takti við hugmyndafræði sem kallast Baba Yaka. Hugmyndafræðin er unnrunnin í París en hefur síðustu ár rutt sér til rúms víðar. Hún gengur út á að skapa valkost við önnur búsetuform sem eldra fólki býðst í dag, í þessu tilviki fyrir konur á besta aldri sem vilja búa í sínum íbúðum en í húsi með ýmsum sameiginlegum rýmum og öðrum konum sem eru svipað þenkjandi, líkt og Unnur Ágústsdóttir úr Femínistum 60+, sagði í viðtali við Síðdegisútvarpið í vikunni.
Fréttaskýringar Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Húsið að Bræðraborgarstíg 1 var byggt árið 1906 og var fyrstu árin fjölskylduhús með bakaríi og verslun á jarðhæðunum. En síðustu ár hefur það verið í eigu félaga sem leigðu herbergi þess út, aðallega til erlends verkafólks. Viðhaldi hússins var ábótavant og höfðu nágrannar margsinnis kvartað vegna þess til borgaryfirvalda. Þrír fórust í eldsvoðanum sem varð 25. júní, allt ungt fólk frá Póllandi. Þá slösuðust tveir alvarlega. Annar brann mjög illa og hinn hlaut áverka við það að stökkva út um glugga á rishæðinni til að forðast eldinn.
Byggingarfulltrúi Reykjavíkur sendi eigandanum HD verki ehf. bréf í lok október þar sem honum var gert að sækja um niðurrif og fjarlægja það sem eftir stæði af húsinu innan þrjátíu daga. Í athugasemd eigandans kom fram að hann vildi ekki að húsið yrði rifið strax. Það væri sönnunargagn í vátryggingarmáli sem gæti dregist í marga mánuði, jafnvel ár. Ef yfirvöld myndu engu að síður láta rífa það yrði farið í mál og þau krafin bóta.
En mögulega er nú fundin lausn í niðurrifsmálinu – þó að enn eigi eftir að hnýta marga lausa enda. Lausn sem nágrannar, borgaryfirvöld og Minjastofnun hafa tekið vel í, að sögn Runólfs.
Kaupverð húsanna tveggja fæst ekki upp gefið. Nú standa yfir viðræður við bankastofnanir um yfirtöku á áhvílandi lánum. Að auki þarf að ná samkomulagi við vátryggingarfélagið VÍS sem HD verk tryggði hjá en byggingareiturinn er keyptur með kröfu á tryggingafélagið. „Fjármögnun verkefnisins stendur yfir og gengur vel,“ segir Runólfur. „Við erum svona hálfnaðir með hana.“
Þorpið vistfélag mun stofna sérstakt dótturfélag utan um eignirnar á Bræðraborgarstíg 1 og 3 líkt og gert var í öðru verkefni félagsins, hagkvæmu íbúðahverfi í Gufunesi. Runólfur segir að framkvæmdin muni líklega kosta um einn milljarð króna og að til verksins þurfi um 25 prósent eigið fé.
Deilur HD verks og VÍS hafa m.a. staðið um það hvort að allt húsið á horni Bræðraborgarstígs 1 og Vesturgötu eyðilagðist í eldsvoðanum. Tryggingafélagið mat viðbygginguna á Vesturgötu að mestu heila eftir brunann.
Runólfur segir að hornhúsið verði allt rifið gangi hugmynd Þorpsins vistfélags eftir. Þá yrði Bræðraborgarstígur 3, þar sem gistiheimili og útleiga á herbergjum til langs tíma hefur verið stunduð síðustu ár, hækkað um eina hæð og endurgert með bárujárnsklæðningu og aldamótagluggum. Bæði húsin voru byggð á fyrstu árum síðustu aldar en var mikið breytt í áranna rás.
„Við erum að hanna þessar lóðir sem eina heild í kringum þennan mjög svo stóra og frábæra bakgarð,“ segir Runólfur. Nýtt hornhús mun svo rísa þar sem brunarústirnar standa nú. „Þar þurfum við að vanda okkur sérstaklega gagnvart götumyndinni á Vesturgötu sem er mjög viðkvæm.“
Þorpið vistfélag hefur til 7. janúar til að efna kauptilboðið. „Það þarf auðvitað að ganga frá þessum praktísku atriðum; tryggingamálinu, yfirtöku á lánum og greiðslu, en um leið og þau eru í höfn og við höfum tekið formlega við eigninni, verður það forgangsatriði að byrja að taka til.“
Runólfur segir að viðbrögðin við verkefninu hafi verið gríðarlega góð. „Við erum óvenjulegt fyrirtæki á þessum markaði. Það sem við gerum er að leggja áherslu á samfélagslega þætti í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Við viljum búa til samfélag. Markmiðið er að reisa þennan byggingarreit aftur til fyrri vegs og virðingar. Að gera eitthvað gott á þessum stað eftir þær hörmungar sem þarna urðu.“
Hornhúsið var á sínum tíma mikilvægur samkomustaður í hverfinu. Í bakarí Sveins Hjartarsonar lögðu Vesturbæingar leið sína í áratugi og sömuleiðis í nýlenduvöruverslun Hjartar bróður hans sem var í pakkhúsi á milli húsanna númer 1 og 3.
Í fréttaskýringu Kjarnans um sögu hússins kom m.a. fram að Sveinn og eiginkona hans Steinunn Sigurðardóttir tóku að sér börn tveggja systra Steinunnar eftir að þær létust í spænsku veikinni árið 1918. Eitt þessara fósturbarna var Guðmundur Ágústsson sem tók við rekstri bakarísins eftir andlát Sveins. Steinunn er sögð hafa kennt honum mannganginn og hann varð síðar snjall skákmaður.
Teknir í bakaríið á Bræðraborgarstígnum
Skemmtileg saga er til af Guðmundi og þekktu orðatiltæki í íslensku: Að taka einhvern í bakaríið. „Guðmundur hafði það til siðs að koma á unglingaæfingar hjá Taflfélagi Reykjavíkur sem voru haldnar á laugardögum og að þeim loknum bauð hann venjulega þeim efnilegustu til sín um kvöldið til að tefla,“ skrifar Benedikt Jónasson, í athugasemd á Vísindavefnum. „Ef menn fóru illa út úr viðureignum við hann þá voru þeir teknir í bakaríið.“
Af bakaríinu gæti nú tekið við hús í anda Baba Yaka. Unnur sagði svo frá því óvenjulega nafni í Síðdegisútvarpinu í vikunni: „Baba Yaka er upphaflega slóvensk norn sem býr út í skógi í húsi sem stendur á kjúklingalöppum.“
Þannig hús verður þó vissulega ekki byggt á Bræðraborgarstígnum. Það verður mun veglegra. En það mætti vel kalla það nornahús.
„En hugmyndafræðin er sú að skapa valkost við önnur búsetuform sem eldra fólki bjóðast í dag, sagði Unnur. „Þarna geti þeir eða þær í þessu tilviki, fólk sem er á svipaðri línu, tekið sig saman og búið sjálfstætt og jafnframt stutt hver aðra.“
Að sögn Unnar má segja að um „kommúnu-hugsun“ sé að ræða að ákveðnu leyti. Gert sé ráð fyrir litlum íbúðum með sjálfstæðri búsetu en góðri sameign, t.d. stórum garði, leikfimisal og stóru eldhúsi. Hægt verði að hafa einhverjar uppákomur í sameiginlegum rýmum og svo er einnig stefnt á að opna á Bræðraborgarstígnum bæði kaffihús og handverksbúð.
Hið nýja hús á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu mun ekki rísa alveg á næstunni. Fyrst þarf að rífa brunarústirnar, þá þarf málið að fara í gegnum hefðbundið skipulagsferli sem tekur sinn tíma. Að því loknu geta framkvæmdir fyrst hafist. Ef allt gengur að óskum gætu fyrstu konurnar flutt inn eftir um þrjú ár, að sögn Unnar.
Runólfur vonast til þess að verkefnið muni gefa af sér út í hverfið og að húsið á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu verði á ný sú félagsmiðstöð hverfisins sem það var.