Boeing 737 MAX-þota brasilíska lággjaldaflugfélagsins Gol lenti heilu og höldnu í Porto Alegre, eftir 90 mínútna flugferð frá Sao Paulo fyrr í dag. Um var að ræða fyrsta farþegaflug þotu af gerðinni Boeing 737 MAX síðan í mars árið 2019.
Þá voru vélarnar kyrrsettar á heimsvísu í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa sem rakin voru til gallaðs hugbúnaðs í vélunum.
AFP-fréttastofan segir frá þessu í dag, en blaðamenn þaðan var um borð í fluginu í Brasilíu í morgun. Segir í frásögn þeirra að fæstir farþeganna hafi gert sér ráð fyrir að þarna væri um að ræða sögulegan viðburð.
„Ef hún er komin, þá hlýtur það að þýða að hún sé örugg, er það ekki?“ spurði einn maður eftir að blaðamaður tjáði honum að um væri að ræða fyrsta farþegaflugið með þotu af þessari gerð í heila 20 mánuði.
MAX-vélarnar fengu flugleyfi frá bandarískum flugmálayfirvöldum í nóvembermánuði, en þar í landi hafa einungis farið fram prufuflug án farþega til þessa.
Brasilísk flugmálayfirvöld hafa einnig veitt þeim flugleyfi að nýju. Vinna stendur yfir hjá evrópskum flugmálayfirvöldum við að meta vélarnar.
Búnir að panta 95 þotur til viðbótar
Gol, sem er stærsta innanlandsflugfélag landsins, reið á vaðið og varð fyrsta flugfélag heims til að taka vélarnar aftur inn í flugáætlun sína.
Brasilíska félagið hefur sent 140 flugmenn sína á námskeið til Boeing til þess að fá þjálfun og kynningu á þeim uppfærslum sem gerðar hafa verið á MAX-vélunum af hálfu Boeing.
Gol ætlar að vera búið að taka allar sjö MAX-vélar fyrirtækisins í notkun fyrir enda þessa árs, en til viðbótar hefur flugfélagið lagt inn pöntun á 95 þotum af þessari gerð til viðbótar og bíður þess sömuleiðis að fá 20 slíkar sem þegar hafa verið keyptar sendar frá Bandaríkjunum.
Icelandair gerir ráð fyrir því að MAX-vélarnar verði hluti af áætlun flugfélagsins næsta vor, samkvæmt fjárfestatilkynningu þeirra við síðasta hlutafjárútboð.