Eigendur 0,011 prósent hlutafjár í Eimskip tóku yfirtökutilboði stærsta eiganda félagsins, Samherja Holding, í allt hlutafé þess. Tilboðið gilti þangað til í gær. Samherji mun því bæta sáralitlu við eignarhlut sinn í Eimskip og á nú 30,28 prósent í félaginu.
Greint var frá því 21. október síðastliðinn að Samherji Holding, annar helmingur Samherjasamstæðunnar, væri kominn aftur yfir 30 prósent eignarhlut í Eimskip sem skyldar félagið til að gera yfirtökutilboð.
Tilboðið hljóðaði upp á 175 krónur á hlut sem hefði þýtt að Samherji Holding hefði þurft að greiða 22,7 milljarða króna ef allir aðrir hluthafar hefðu samþykkt tilboðið. Það verð er langt undir markaðsgengi Eimskips, en við lok viðskipta í gær var það 229 krónur á hlut. Þeir hluthafar sem seldu bréf sín til Samherja fengu því 23,5 prósent lægra verð fyrir en ef þeir hefðu selt á markaði í gær. Því blasti við nær allan tímann frá þvi að yfirtökutilboðið var gert að litlar sem engar líkur voru á því að flestir hluthafar myndu taka því.
Í annað sinn sem yfirtökuskylda myndaðist á árinu
Þetta var í annað sinn á þessu ári sem Samherji Holding fór yfir 30 prósent hlut í Eimskip, en við það myndast lögbundin yfirtökuskylda. Það gerðist fyrst 10. mars 2020.
Ástæða þess er sú að þegar einn fjárfestir er farinn að ráða yfir meira en 30 prósent í félagi þá eru tök hans á því orðin svo mikil að þær aðstæður geta skapast að hann geti tekið ákvarðanir, og hrint þeim í framkvæmd, sem þjóna hagsmunum fjárfestisins, ekki félagsins eða annarra hluthafa. Því er um lykilskilyrði í lögunum sem ætlað er að vernda minni hluthafa fyrir því að stórir fjárfestar geti valdið þeim skaða.
Tíu dögum síðar, 20. mars, hafði staðan í heiminum breyst hratt. Hlutabréfamarkaðir voru í frjálsu falli og hvert ríkið á fætur öðru var að loka landamærum sínum og hrinda í framkvæmd stórfelldum skerðingum á ferðafrelsi íbúa sinna, jafnt innan landamæra sem utan. Afleiðingin var hrun í eftirspurn eftir flest öllum vörum og þjónustum.
Þann dag sendi Samherji Holding Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskaði eftir að fá undanþágu frá yfirtökuskyldunni sem hafði myndast. Sú undanþágubeiðni var rökstudd vegna þeirra „sérstöku aðstæðna sem hefðu skapast á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu Covid-19. Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að veita slíka undanþágu ef sérstakar ástæður mæla með því.“
Þremur dögum síðar seldi Samherji 2,93 prósent hlut í Eimskip. Sú sala gerði það að verkum að atkvæðavægi Samherja í Eimskip fór niður í 29,99 prósent, eða í hæsta mögulega fjölda atkvæða sem halda má á án þess að mynda yfirtökuskyldu.
Daginn eftir að Samherji seldi sig undir viðmiðunarmörk ákvað Eimskip að fella afkomuspá sína fyrir árið 2020 úr gildi vegna óvissunnar sem væri uppi vegna COVID-19.
Fjármálaeftirlitið samþykkti beiðni Samherja um að sleppa við yfirtökuskyldu.
Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði og innan lífeyrissjóðakerfisins sögðu að mörgum fjárfestum þætti ákvörðunin ótrúleg. Svo virtist vera sem að hagsmunir einnar fyrirferðamikillar samstæðu væru teknir fram fyrir hagsmuni annarra hluthafa með því að „sleppa þeim af önglinum“ eins og einn viðmælandi orðaði það.
Hluthafar hafi verið fullfærir til að taka þessa ákvörðun sjálfir og ákveða hvort að aðstæður kölluðu eftir því að taka yfirtökutilboðinu og hætta afskiptum að félaginu, eða hafna því og halda áfram að vera í hluthafahópi þess á þeim krefjandi tímum sem framundan eru.