Myndir af fyrsta fólkinu sem var bólusett fyrir COVID-19 í Bretlandi á þriðjudag hringsóluðu þegar í stað um heiminn á forsíðum blaða, í sjónvarpi og á netmiðlum. Gjörningurinn veitir mörgum von um að faraldurinn verði senn á enda. Og það er tilefni til þessarar bjartsýni. Bóluefni, sem þróuð hafa verið á mettíma, eru í þann mund að koma á markað víða.
En það er þó mikilvægt að fagna ekki of snemma. Þau Margaret Keenan, níræður fyrrum skartgripasali, og hinn rúmlega áttræði William Shakespeare, (já, hann heitir það) voru þau fyrstu í Bretlandi til að fá fyrri sprautuna af bóluefni Pfizer og BioNtech. Þau verða þó, líkt og aðrir sem þegar hafa fengið bóluefnið, að gæta að sóttvörnum, s.s. fjarlægðarmörkum og handþvotti, áfram eða þar til búið er að bólusetja mikinn meirihluta þjóðarinnar. Því staðreyndin er sú að þótt bóluefnið veiti níu af hverjum tíu sem það fá góða vörn gegn því að veikjast er enn ekki að fullu vitað hvort að þeir sem það fái geti smitað aðra sem enn eru næmir fyrir veirunni.
Enn er því langt í land þar til hið eftirsótta hjarðónæmi næst í samfélögum heimsins og meðal jarðarbúa í heild. En fyrsta skrefið hefur verið stigið.
Yfirvöld í Bretlandi gáfu Pfizer og BioNtech sérstakt neyðarleyfi til að hefja dreifingu bóluefnis síns þar í landi. Evrópska lyfjastofnunin er enn að fara yfir niðurstöður rannsókna á efninu. Sömu sögu er að segja um Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) sem þó færði góðar fréttir af sínu eftirlitsferli í vikunni. Samkvæmt gögnum sem stofnunin birti veitir bóluefni fyrirtækjanna góða vörn gegn COVID-19 innan við tíu dögum eftir að fólk fær fyrri sprautuna.
Um er að ræða niðurstöður sem ekki hafa áður verið gefnar út. Þegar hafði Pfizer upplýst að samkvæmt rannsóknum hefði bóluefnið gefið 95 prósent þeirra sem tóku það í prófunum vörn eftir báðar sprauturnar sem gefnar eru með þriggja vikna millibili.
Þá þykir einnig fagnaðarefni að bóluefnið gaf góða virkni óháð kynþætti, þyngd og aldri þátttakenda í prófununum. Þó að sjálfboðaliðarnir sem fengu efnið hafi ekki fundið fyrir alvarlegum aukaverkunum fengu margir þeirra væg einkenni á borð við hita og verki eftir að hafa fengið það, sérstaklega eftir seinni sprautuna. Það gæti því verið ráð að taka sér frí frá vinnu í sólarhring.
„Það er svona sem A+ einkunnaspjald lítur út þegar bóluefni á í hlut,“ hefur New York Times eftir Akiko Iwasaki, ónæmissérfræðingi við Yale-háskóla um fyrstu niðurstöður FDA.
Lyf og bóluefni fá ítarlega skoðun hjá FDA áður en þau koma á markað. Í næsta skrefi mun ráðgjafaráð stofnunarinnar fara yfir öll gögn málsins og skera úr um hvort að mælt verði með því að heimila almenna bólusetningu með bóluefni Pfizer og BioNtech. Ráðið mun koma saman í dag, fimmtudag, til að ráða ráðum sínum.
44 þúsund sjálfboðaliðar í Bandaríkjunum, Brasilíu og Argentínu tóku þátt í prófunum á bóluefni Pfizer og BioNtech. Helmingur þeirra fékk sjálft bóluefnið en aðrir fengu lyfleysu.
Óvissuþættir enn til staðar
Nokkrir óvissuþættir eru þó enn til staðar. Í fyrsta lagi er ekki vitað með vissu hversu lengi vörnin sem fyrri sprautan af bóluefninu gefur varir. Því er talið nauðsynlegt að gefa það tvisvar eins og áður segir og rannsóknir lyfjafyrirtækjanna þykja sýna að þá myndist góð og langvarandi vörn.
Þá hafa margir sérfræðingar viðrað þær áhyggjur sínar að bóluefnið kunni að verja ákveðna hópa fólks betur en aðra. En þau gögn sem FDA birti í gær benda ekki til þess. Samkvæmt þeim verkar bóluefnið jafnt á konur sem karla, óháð kynþætti þeirra. Þá er það talið verja offitusjúklinga vel gegn sjúkdómnum en sá hópur fólks er talinn í mikilli hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19.
Sum bóluefni gegn öðrum sjúkdómum veita minni vörn eftir því sem fólkið sem þau fá er eldra. En samkvæmt rannsóknarniðurstöðum Pfizer og BioNtech ver bóluefnið fólk yfir 65 ára aldri jafn vel og yngra fólk.
„Ég fór að skjálfa þegar ég las þetta,“ hefur New York Times eftir Gregory Poland, bóluefnasérfræðingi við Mayo Clinic. „Þetta er alslemma hvað alla mælikvarða snertir.“
Niðustaða FDA á þessum stað í leyfisferlinu er sú að ekkert bendi til alvarlegra heilsufarsvandamála í tengslum við bóluefnið. Prófanir Pfizer og BioNtech munu halda áfram, jafnvel þótt að FDA leyfi dreifingu bóluefnisins og notkun í Bandaríkjunum. Áfram verður fylgst með sjálfboðaliðunum sem fengu bóluefnið í prófunum með langtímavirkni þess og öryggi í huga.