Tæplega 21 þúsund manns voru alveg án vinnu í nóvember og hartnær 5.500 manns til viðbótar voru í minnkuðu starfshlutfalli, á hlutaatvinnuleysisbótum. Búist er við að atvinnuleysi í landinu haldi áfram að aukast, samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar sem gefin var út í dag.
Almennt atvinnuleysi mældist 10,6 prósent í nóvembermánuði, en heildaratvinnuleysi að hlutabótaleiðinni meðtalinni mældist heil 12 prósent.
Atvinnuleysi jókst í öllum landshlutum, en er sem fyrr tilfinnanlega mest á Suðurnesjum. Þar var staðan sú í nóvember var sú að 21,4 prósent, eða rösklega einn af hverjum fimm vinnandi einstaklingum, hafði ekki vinnu.
Næst mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, eða 10,6 prósent almennt atvinnuleysi, sem er á pari við landsmeðaltal. Atvinnuleysi er lægra í öðrum landshlutum, eða á bilinu 4,8 prósent á Vestfjörðum og upp í 9,6 prósent á Suðurlandi. Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu.
Um fjórðungsatvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara
Margir erlendir ríkisborgarar hafa misst vinnuna í þeirri atvinnuleysiskreppu sem nú ríður yfir á Íslandi. Fjöldi erlendra atvinnuleitenda í nóvember var 8.553, sem samsvarar um 24 prósent atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi.
Við þetta bætist að rösklega 1.500 erlendir ríkisborgarar voru á hlutabótaleið í nóvember og er því heildaratvinnuleysi hjá erlendum ríkisborgurum um 26 prósent. Erlendir ríkisborgarar voru um 41 prósent af öllum þeim sem voru á atvinnuleysisskrá í nóvembermánuði, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.
Mikið af ungu fólki er á atvinnuleysisskrá miðað við fyrri ár, en alls voru 2.240 manns á aldrinum 18-24 ára án atvinnu í lok nóvember. Atvinnulausum ungmennum hefur fjölgað um 1.234 frá nóvember 2019 þegar fjöldi atvinnulausra á þessu aldursbili var 1.006.