Samherji segir að höfundum tölvupósta sem sendir voru milli starfsmanns fyrirtækisins og fyrrverandi stjórnarformanns ríkisútgerðar Namibíu hafi verið víxlað í greinargerð ríkissaksóknara í kyrrsetningarmálið sem rekið er þar í landi.
Í tölvupóstunum er rætt um að namibísk yfirvöld hafi ekki burði til að hafa uppi á leynireikningum í Dúbaí sem yfirvöld í Namibíu gruna að hafi verið notaðir til að meðtaka mútugreiðslur frá Samherja í skiptum fyrir hrossamakrílskvóta í Namibíu.
Kjarninn greindi frá því á föstudag að í greinargerð ríkissaksóknara Namibíu í kyrrsetningarmáli tengdu Samherja kæmi fram að Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, hefði átt í tölvupóstsamskiptum við James Hatuikulipi, einn þeirra sex manna sem sitja í fangelsi í Namibíu vegna gruns um að þiggja mútur frá Samherja, í maí árið 2019.
Í samskiptunum, líkt og þeim er lýst í greinargerðinni, reyndi Jón Óttar að slá á áhyggjur um að yfirvöld í Namibíu gætu haft upp á þeim greiðslum sem farið höfðu inn á leynireikninga í Dúbaí.
Í fyrri póstinum sem hann er sagður hafa sent, 28. maí í fyrra, sagði: „Er einhver hætta á því að upphæðirnar sem greiddar voru „úti” uppgötvist? Þeir vilja ekki búa til neina pappíra sem fjalla um fiskflutninga en að síðan komi slóð peninganna í ljós.“
Í síðari pósti, sem er sagður sendur af Jóni Óttari og móttekinn af James Hatuikulipi sagði: „Við höfum lokað þeim reikningum. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsviðskiptum.“
Tölvupóstarnir slitnir úr samhengi
Í tilkynningu sem Samherji birti á vef sínum 11. desember í kjölfar fréttaflutnings RÚV af málinu sagði : „Í lok fréttarinnar voru sýnd tölvupóstsamskipti milli ráðgjafa Samherja og stjórnarformanns namibíska útgerðarfyrirtækisins Fishcor. Rangt var farið með efni tölvupóstanna, þeir slitnir úr samhengi og þá var höfundum tölvupóstanna víxlað í fréttinni. Þannig var ráðgjafi Samherja sagður höfundur tölvupósts sem hann sendi ekki."
Kjarninn sendi fyrirspurn á Samherja vegna þessa og óskaði eftir upplýsingum um hvort fyrirtækið héldi því fram að rangt sé farið með þennan hluta í greinargerð ríkissaksóknara Namibínu, og ef svo væri hvort Samherji hafi einhver gögn undir höndum sem sýni fram á þetta.
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að það sé rétt ályktað að ranglega sé vísað til tölvupóstanna milli Jóns Óttars og James Hatuikulipi í greinargerðinni. „Tölvupóstur, sem sagður var frá ráðgjafa Samherja, var í reynd sendur af þáverandi stjórnarformanni Fishcor og því var höfundum tölvupóstanna víxlað. Þetta sést þegar frumgagnið er skoðað en fjölmiðlar hafa eingöngu vísað til áðurnefndrar greinargerðar.“
Samherji sendi ekki gögn til að sýna fram á að þetta. Þá var ekki tilgreint í svari Björgólfs hvor tölvupóstanna sem fjallað er um hér að ofan átti að vera sendur af James Hatuikulipi en ekki Jóni Óttari.
Frumgagnið sem vísað er til í greinargerðinni er ekki opnanlegt á vefnum eJUSTICE Namibia, þar sem greinargerðina og flest fylgigögn er að finna, þar sem skráin er skemmd.