Harðar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir stórfellda útbreiðslu kórónuveirunnar taka gildi í Þýskalandi á miðvikudag. Flestar verslanir í landinu nema matvöruverslanir og apótek þurfa að loka og sömuleiðis öll þjónusta sem ekki telst nauðsynleg, til dæmis hárgreiðslustofur. Það verður fátt eðlilegt við jólin í Þýskalandi í ár.
Angela Merkel Þýskalandskanslari kynnti þessar ráðstafanir á blaðamannafundi í gær, sunnudag, eftir að hafa fundað með leiðtogum þýsku ríkjanna sextán. Samkvæmt umfjöllun Deutsche Welle er gripið til þessara ráða til þess að koma í veg fyrir niðurbrot þýska heilbrigðiskerfisins, sem hefur verið undir miklu álagi vegna stóraukinnar smittíðni á undanförnum dögum og vikum.
Á föstudag var sagt frá því að 29.875 tilfelli COVID-19 hefðu greinst í landinu sólarhringinn á undan, sem er met. Nýgengi smita er orðið of mikið til þess að hægt sé að rekja smit með viðunandi hætti og heilbrigðiskerfið undir miklu álagi víða um landið.
Skólar eru hvattir til þess að senda nemendur heim og halda áfram í fjarnámi fram að jólum, til þess að koma í veg fyrir eins og hægt er að smit berist um í skólum og síðan áfram inn í stórfjölskyldur sem koma saman á jólum. Skólum er einnig uppálagt að lengja jólafrí barnanna fram til 10. janúar, en þá á að hverfa frá þessum hörðu aðgerðum.
Foreldrum verður gert kleift að taka launuð frí til þess að líta eftir börnum sínum á meðan að skólar og daggæslur barna loka. Atvinnurekendur eru hvattir til þess að leyfa öllum starfsmönnum sem geta unnið að heiman, að gera það.
Mest fjórir gestir yfir fjórtán ára aldri í jólaboð
Það verður aðeins slakað á reglunum yfir helstu helgidaga jóla, en frá 24.-26. desember er áætlað að slaka ögn á reglum um samgang á milli heimila svo nánustu fjölskyldur geti haldið saman jól.
Þá daga má bjóða fjórum fullorðnum einstaklingum af öðrum heimilum innan nánustu fjölskyldu inn á önnur heimili, en annars á samgangur á milli heimila að vera í algjöru lágmarki.
Ótakmarkaður fjöldi barna undir 14 ára aldri má fylgja með í þessar heimsóknir, en þeim sem hyggja á jólaboð er uppálagt að einangra sig í eina viku fyrir jól og fara hvergi ef einkenna verður vart á þeim tíma.
Það er ýmislegt sem verður óhefðbundið í Þýskalandi þessi jólin. Sú hefð að drekka rjúkandi jólaglögg utandyra verður hvíld þessi jól, en öll neysla áfengis á almannafæri verður bönnuð frá og með miðvikudeginum.
Helgiathafnir í kirkjum og öðrum bænahúsum mega eiga sér stað ef farið er eftir reglum um sóttvarnir, en allur samsöngur er bannaður. Í Þýskalandi rétt eins og á Íslandi tíðkast það að almenningur kaupi sér eigin flugelda til þess að skjóta upp í loftið er nýtt ár gengur í garð. Það verður ekki leyfilegt þetta árið.
Búast mátti við þessum hertu sóttvarnaaðgerðum í Þýskalandi, en fyrir helgi sagði Merkel þýska þinginu í tilfinningaríkri ræðu að eitthvað þyrfti að gera. Fjöldi daglegra dauðsfalla væri orðinn óásættanlegur og hættan á að staðan færi algjörlega úr böndunum raunveruleg.
„Ef við hittum of marga núna í aðdraganda jóla og það leiðir til þess að jólin verða þau síðustu sem við eigum með ömmu okkar og afa, þá hefur okkur mistekist,“ sagði Merkel og uppskar lófatak þingmanna.