Í bréfi sem ESA sendi fjármálaráðuneytinu um ákvörðun sína í dag segir að stuðningurinn, sem skiptist hlutfallslega á milli ríkis og borgar í samræmi við eignarhlut hvors aðila í Hörpu (54 og 46 prósent), sé ríkisaðstoð sem rúmist innan marka EES samningsins. ESA mótmæli því ekki tilhöguninni.
Í bréfi eftirlitsstofnunarinnar segir að íslensk stjórnvöld hafi sagt frá því að COVID-faraldurinn hafi haft lamandi áhrif á viðburðastarfsemi á Íslandi, engir stórir viðburðir hafi í raun verið haldnir í landinu frá því í mars. Fjarfundir hafi leyst ráðstefnur af hólmi, á meðan glíman við veiruna stóð yfir.
Íslensk stjórnvöld fóru yfir áhrifin af þessu á starfsemi Hörpu. Í fyrra voru þar 721 tónleikar og aðrir menningarviðburðir, en í ár er gert ráð fyrir að slíkir viðburðir verði einungis 329 talsins. Í fyrra voru 411 ráðstefnur í húsinu, en í ár hafa þær einungis verið 137. Aðrir viðburðir í fyrra voru 200 talsins, en í ár bara 41.
COVID-tjón Hörpu áætlað 466 milljónir króna
Áhrifin á tekjustreymi tónlistar- og ráðstefnuhússins, sem rekið er sem opinbert hlutafélag, hafa verið mikil og fyrirséð er að þau haldi áfram fram á næsta ári.
Samkvæmt útreikningum íslenskra yfirvalda er reiknað með að tjón Hörpu vegna kórónuveirufaraldursins nemi 328,7 milljónum króna og búist er við að tjón á fyrstu sex mánuðum næsta árs nemi 137,3 milljónum.
Samtals eru ríkið og Reykjavíkurborg því að bæta Hörpu upp tjón sem nemur 85,8 prósentum af ætluðu 466 milljóna króna tjóni. ESA veitir eigendum hússins heimild til þess að bæta tjón Hörpu að fullu með fjárframlögum úr opinberum sjóðum ríkis og borgar.
Samkvæmt bréfi ESA skuldbinda stjórnvöld sig til þess að skila skýrslu fyrir árslok 2021 til eftirlitsstofnunarinnar, þar sem fram kemur nákvæmlega hversu mikið tjón Harpa hafi fengið bætt. Einnig segjast stjórnvöld ætla að tryggja að Harpa fái ekki stuðning umfram það rauntjón sem orðið hefur vegna áhrifa faraldursins.
Á annan tug milljarða frá ríki og borg til Hörpu frá 2011
Þessi framlög ríkisins og borgarinnar til að bæta upp COVID-tjónið bætast ofan á önnur framlög til rekstrar hússins. Kjarninn sagði frá því í sumar að eigendur Hörpu hefðu samanlagt lagt 1,6 milljarða króna til hússins á árinu 2019. Þá er bæði verið að tala um afborganir af lánum vegna byggingarkostnaðar og bein rekstrarframlög til að mæta taprekstri.
Bein rekstrarframlög frá eigendum höfðu þá samtals numið rúmlega 2,1 milljarði króna frá árinu 2011. Þar af hafði ríkið lagt til rúman 1,1 milljarð króna en borgin 974 milljónir króna. Borgin hefur fengið um 1,9 milljarð króna af heildarframlagi sínu til baka vegna álagðra fasteignaskatta á Hörpu.
Stóð ekki til að leggja meira fé í reksturinn
Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg samþykktu að taka yfir og klára byggingu Hörpu snemma árs 2009. Þá höfðu framkvæmdir við byggingu hússins, sem Eignarhaldsfélagið Portus stóð fyrir, stöðvast í kjölfar bankahrunsins. Ástæðan var sú Portus og dótturfélög þess, sem voru í eigu Landsbanka Íslands og Nýsis, fóru í þrot.
Eftir yfirtöku ríkis og borgar á verkefninu, sem var gerð þegar Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, var menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í Reykjavík, var tekið sambankalán hjá íslensku bönkunum til að fjármagna yfirtökuna. Í skriflegu svari Katrínar við fyrirspurn þingmannsins Marðar Árnasonar um Hörpu, sem birt var í mars 2011, kom mjög skýrt fram að ekki ætti að setja meira fé en þar var umsamið í Hörpu.
Þar sagði orðrétt að „forsendur fyrir yfirtöku verkefnisins voru þær að ekki þyrftu að koma til önnur framlög frá ríki og borg en gert var ráð fyrir í samningi Austurhafnar-TR og Portusar frá 9. mars 2006". En síðan þá hefur afkoma rekstrarreiknings Hörpu oftast verið neikvæð.
Þórður Sverrisson, þá fráfarandi stjórnarformaður Hörpu, sagði á ársfundi Hörpu í fyrra að tapið skýrðist af því fyrirkomulagi að skuldabréfalán til 35 ára, sem tekið var til að fjármagna byggingu hússins, væri vistað í dótturfélagi fyrirtækisins.
„Það er morgunljóst að þetta rekstrarmódel Hörpu hefur aldrei verið og getur aldrei orðið sjálfbært. Því verður að breyta til að ná að skapa Hörpu ohf, sem hlutafélagi eðlilegan rekstrargrundvöll til framtíðar þannig að það nái að starfa sem sjálfbært fyrirtæki og geti gegnt sínu mikilvæga hlutverki,“ sagði Þórður.