Samkvæmt gögnum frá Facebook er fólk á höfuðborgarsvæðinu meira á ferðinni nú en síðustu vikur og mánuði. Hópur vísindamanna við Háskóla Íslands, sem gert hefur spálíkan um þróun faraldurs kórónuveirunnar, segja blikur á lofti – að tæp vika sé til jóla og „greinilegt að umsvif eru að vaxa í þjóðfélaginu“.
Margir óttast að fjórða bylgjan skelli á okkur í janúar – jafnvel fyrr – enda samkomur fólks, þótt smáar séu í sniðum, meiri á aðventu og jólum meiri en síðustu vikur og mánuði.
Í gær greindust 12 manns með COVID-19 hér á landi og fjórir voru utan sóttkvíar. Dagana þar á undan höfðu færri greinst og hlutfallslega fleiri verið í sóttkví.
Facebook hefur frá því í júní birt gögn um hvernig hreyfingarmynstur notenda er á tímum COVID-19. Í uppfærslu á gögnunum frá því í gær má sjá hvernig hreyfing fólks á höfuðborgarsvæðinu hefur verið frá 1. mars til 15. desember.
„Það er greinilegt hvað dró úr umsvifum í mars, apríl og maí,“ segir í rýni vísindamanna HÍ, í gögn Facebook. „Síðan aukast umsvif um sumarið. Aðeins dró úr í lok júlí en tekur kipp uppá við í ágúst. Um miðjan september dregur svo úr umsvifum en hefur byrjað að leita upp á við í nóvember og síðan haldið áfram að vaxa í desember.
Með auknum umsvifum og hreyfingu fólks aukast líkur á dreifingu veirunnar.“
Önnur aðferð til að meta hreyfingu fólks á höfuðborgarsvæðinu er þegar landsvæði þess er skipt upp í um það bil 600×600 metra ramma. Dagleg hreyfing höfuðborgarbúa er svo metin út frá því hversu marga ramma þeir heimsækja.
Um það bil fjórðungur hélt sig innan ramma í fyrstu bylgju faraldursins. Svo lækkaði það hlutfall er smitum fækkaði verulega í sumar en hækkaði aftur í þriðju bylgju. „Undanfarið hefur þetta hlutfall lækkað aftur sem sýnir að fólk er meira á ferðinni og dreifir sér meira,“ segja vísindamenn HÍ í rýni sinni. „Nú reynir á að draga úr umsvifum eins og kostur er.“
Nánar má lesa um aðferðarfræðina hér.
Gögn Facebook má nálgast hér.