Íslensk stjórnvöld hafa tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87 prósent þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands. „Samningar sem Ísland hefur þegar lokið við lyfjaframleiðendurna Pfizer og Astra Zeneca tryggja 400.000 bóluefnaskammta sem nægja fyrir 200.000 einstaklinga,“ segir þar.
Þá verður samningur við bóluefnaframleiðandann Janssen undirritaður 23. desember næstkomandi. Sá samningur mun tryggja 235 þúsund skammta sem nægja fyrir 117.500 manns. Alls tryggja þessir þrír samningar bóluefni fyrir rúmlega 317 þúsund einstaklinga. Þá verður samningur við Moderna undirritaður 31. desember næstkomandi en ekki liggur fyrir hvert umfang samningsins verður.
Tilkynning stjórnvalda kemur í kjölfar umfjöllunar um úttekt Bloomberg fréttaveitunnar sem fjallar um bóluefni við kórónuveirunni og hvernig stjórnvöldum víða um heim miðar í því að tryggja sér bóluefni. Í úttekt Bloomberg eru íslensk stjórnvöld sögð vera búin að útvega bóluefni fyrir um 103 þúsund manns eða um 29 prósent þjóðarinnar.
Á vef stjórnarráðsins má sjá yfirlit um stöðu samninga Íslands og verður yfirlitið uppfært reglulega eftir því sem málum vindur fram.