Til þess að sátt ríki um miðhálendisþjóðgarð þarf að ná meiri sátt við heimafólk og aðra í nærumhverfi þjóðgarðs að mati Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Lilja var einn gesta Vikulokanna á Rás 1 fyrr í dag þar sem meðal annars var rætt um fyrirhugaðan þjóðgarð. Í þættinum sagði Lilja að Framsóknarflokkurinn hefði sett fram ákveðin skilyrði vegna þjóðgarðsins sem hefðu verið kynnt fyrir umhverfisráðherra, Guðmundi Guðbrandssyni.
Hún sagði málið vera mjög vel unnið og að umhverfisráðherra hefði lagt mikið á sig til þess að reyna að ná sátt um málið. Helstu aðfinnslur Framsóknarflokksins snúi hins vegar að því að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sem eru í nánasta umhverfi þjóðgarðsins, svo sem sveitarfélaga, sé ekki nægilega tryggður. „Við teljum að það þurfi að skerpa betur á þessu og það þurfi að ná þessari sátt og ég held að það séu vísbendingar uppi um að svo sé,“ sagði Lilja.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um er ekki eining um málið innan stjórnarflokkanna. Nú í vikunni sendi Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins, frá sér grein þar sem hann sagði að þjóðgarður yrði ekki að veruleika í vetur. Í grein sinni spurði Jón meðal annars að því hvaða hagsmunum yrði fórnað ef þjóðgarður yrði að veruleika: „Ekkert mat var lagt á aðra hagsmuni sem þó liggur í augum uppi að eru mjög miklir. Hverju erum við að fórna með því að loka á alla aðra mögulega nýtingu á hálendinu?“
Ræða þurfi málið til botns ef þjóðin er ósátt
Aðrir gestir vikulokanna voru þau Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. Loga finnst leitt hvernig íbúum ólíkra svæða hefur verið still upp í málinu: „Ég held að við 350 þúsund manna þjóð þurfum nú ekki á enn einu málinu að halda þar sem að er verið að reyna að stilla þessu upp eins og heimamenn séu eitt og aðrir Íslendingar annað, þetta er hagsmunamál allra Íslendinga.“
Hann sagði það einnig dapurlegt að þrautreyndur þingmaður og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefði komist jafn klaufalega að orði í pontu þingsins og raun var þegar hann talaði um „grenjandi minnihluta“. Logi kallaði í kjölfarið eftir því að umræðan um málið sé hófstillt og upplýsandi.
Að mati Loga er margt gott að finna í frumvarpinu og það vel unnið. „Þó er það þannig að ef að það er stór hluti þjóðarinnar sem er ósáttur þá leiðir það bara af sjálfu sér að þá þarf að ræða málið til botns,“ sagði hann.
Of mikil miðstýring að mati Hönnu Katrínar
Hanna Katrín sagði að enn væri ágreiningur um ýmiss mál er varða þjóðgarðinn. „Þetta mál er bara ekkert fullbúið og við hin sitjum bara og horfum á og ég er, bara svo ég segi eins og er, ég er varla tilbúin í að fara í þriðja umgang í að setja mig og við í Viðreisn inn í þetta mál, því við vitum að þetta er ekki svona sem að stjórnarflokkarnir ætla að leggja þetta fram, það verða einhverjar breytingar,“ sagði hún í þættinum.
Henni þóknast heldur ekki sumar af þeim lausnum sem lagðar hafa verið til til að koma til móts við ólík sjónarmið. „Síðan er verið að mæta gagnrýnisröddum með því að einhvern veginn að girða fyrir hér og þar og til þess til dæmis að mæta kröfum um aukna aðkomu sveitarfélaga þá er búið að búa til mjög flókið kerfi allskonar stjórna og hópa sem gerir það að verkum að miðstýringin verður svo mikil,“ sagði Hanna Katrín. Að hennar sé heilmikil vinna eftir, vinna sem þurfi að ráðast í til að lægja öldur ósættis um málið.