Þegar eldsvoðinn varð á Bræðraborgarstíg 1 í sumar var herbergjaskipan í húsinu allt önnur en á þeim teikningum sem byggingafulltrúi Reykjavíkur samþykkti án athugasemda árið 2000. Í atvinnuhúsnæði á jarðhæðinni var búið að útbúa herbergi óleyfi og í stað tveggja íbúða á efri hæðunum tveimur höfðu ýmsar breytingar verið gerðar til að leigja út fleiri herbergi en voru á teikningunum. Lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna þessara breytinga um aldamótin náði aðeins til fyrstu hæðar hússins. Efri hæðir þess voru ekki skoðaðar. Þá var ekki kallað eftir sérstakri brunahönnun eins og hefði átt að gera en slíkt hefði að öllum líkindum leitt til breytinga á fyrirkomulagi á annarri hæð og rishæð hússins.
Við ítarlega rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á eldsvoðanum sem varð í júní kom fjölmargt athugavert í ljós og ein helsta niðurstaðan er sú að brunavörnum hafi verið verulega ábótavant og þær ekki í samræmi við lög. Brunavarnir eru á ábyrgð eiganda hússins og eiga að vera í samræmi við þá notkun sem í því er.
Engin björgunarop voru til staðar líkt og fram hafði komið á teikningum og þá var húsnæðinu nær ekkert skipt niður í brunahólf sem takmarka útbreiðslu elds milli rýma. HMS segir óvíst að þær brunavarnir sem sýndar eru á nýjustu samþykktu teikningum af húsnæðinu hafi yfir höfuð nokkurn tímann verið til staðar.
Þrír létust í eldsvoðanum og tveir slösuðust alvarlega. Yfir 20 manns bjuggu í húsinu í fjölmörgum herbergjum sem þar voru leigð út, aðallega til erlendra verkamanna. Hópur fólks varð húsnæðislaus í kjölfar eldsvoðans og þar sem lögheimilisskráning var í engum takti við raunverulega búsetu í húsinu náðist ekki að hafa uppi á þeim öllum til að bjóða þá aðstoð sem þeir eiga rétt á. Þá undraðist einn eftirlifenda í viðtali við Kjarnann hversu lítil aðstoðin var og sagði hana hafa verið tilviljanakennda. Fólkið hafði margt hvert takmarkað tengslanet hér á landi og vissi ekki hvert það ætti að leita.
HMS telur að um íkveikju hafi verið að ræða en að margir aðrir þættir hefðu svo orðið til þess að eldsvoðinn varð jafn mannskæður og raun bar vitni.
Brunahólfun aldrei uppfærð
Síðustu samþykktu teikningar af húsinu á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu eru frá árinu 2000 er verslunarrými á jarðhæð var breytt í leikskóla. Húsið var þá skilgreint sem nokkur brunahólf samkvæmt samþykktum teikningum en það virðist sem brunahólfun á milli hæða hafi aldrei verið uppfærð til samræmis við byggingarreglugerð, að minnsta kosti ekki milli 2. hæðar og rishæðar, segir í rannsóknarskýrslu HMS sem kom út á föstudag, tæplega hálfu ári eftir að eldsvoðinn varð.
Þegar talað er um brunahólf er átt við: Lokað rými í byggingu sem er aðskilið frá öðrum rýmum með brunahólfandi byggingareiningum sem hafa viðunandi brunamótstöðu í tilskilinn tíma og varna því að eldur, hiti og reykur breiðist út frá rýminu eða til þess frá öðrum nærliggjandi rýmum. Ekki liggur fyrir hvernig skipulagið var á 2. og rishæð eftir að teikningarnar voru samþykktar þar sem engin lokaúttekt fór fram á þessum hæðum.
Engin rafhlaða til staðar
Skoðun á staðnum eftir brunann sýndi að brunaviðvörunarkerfi var á 1. hæð hússins en upplýsingar um virkni þess liggja ekki fyrir. Á 2. hæð fannst einn reykskynjari á gangi þó HMS segi ekki hægt að útiloka að fleiri skynjarar hafi verið í húsinu. „Engin rafhlaða var til staðar,“ segir um þennan eina reykskynjara sem fannst.
Fólk sem flúði brennandi húsið varð ekki vart við hljóð frá reykskynjurum líkt og fram kom í viðtölum við eftirlifendur í greinaflokki Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg. Tveir karlmenn sem bjuggu í risinu áttuðu sig ekki á því að kviknað væri í fyrr en þeir heyrðu hróp nágranna sinna utan af gangi.
Engin slökkvitæki
Þá fundust engin handslökkvitæki við skoðun HMS á 2. hæð, þeirri hæð þar sem eldurinn kom upp. Brunahólfun að stigahúsi sem sýnd er á nýjustu samþykktu teikningum var heldur ekki til staðar, hvorki brunahólfandi veggir né brunahólfandi hurðir. Þar að auki var ekki annar inngangur upp á 2. hæð eins og sýnt var á teikningu frá 2000 heldur búið að koma þar upp baðherbergi. Þá þykir HMS það sérkennilegt að á samþykktri teikningu af 1. hæð frá árinu 2000 hafi bíslag verið merkt sem geymsla en á sömu teikningu sem uppganga í íbúðina á efri hæð. HMS segir ekki hægt að segja til um hvort að þær brunavarnir sem sýndar eru á samþykktum teikningum hafi nokkurn tímann verið til staðar. „Það er hins vegar hægt að fullyrða að bíslagið hefur verið inngangur á 2. hæðina á einhverjum tímapunkti og því hefur verið lokað með neikvæðum afleiðingum, þar sem flóttaleið frá hæðinni var nú aðeins ein í stað tveggja,“ segir í skýrslu HMS.
Engin björgunarop
Ennfremur sýna samþykktar teikningar björgunarop á herbergjum og á nokkrum stöðum. Í flestum tilfellum voru hins vegar ekki nein björgunarop til staðar, einungis lítil opnanleg fög í gluggum. „Það eitt og sér hafði mjög neikvæð áhrif óháð því að ekki hafi verið fellistigar, svalir eða annar búnaður til björgunar,“ segir í rannsóknarskýrslunni. „Björgunarop hefðu mögulega getað bjargað mannslífum í þessu tilfelli.“
Á 1. hæð þar sem áður var atvinnustarfsemi (leikskóli) var búið að koma fyrir herbergjum til útleigu og því um óleyfisbúsetu að ræða þar sem ekki var til staðar leyfi til að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði eða gistiheimili.
Ekkert eftirlit
Samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir er það hlutverk slökkviliða að hafa eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um brunavarnir. Ekki er áskilið í lögum að framkvæma eldvarnareftirlit í íbúðarhúsnæði og því átti Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins einungis að sinna eldvarnaeftirliti á 1. hæð hússins þar sem skilgreind var atvinnustarfsemi. Slík skoðun var hins vegar aldrei gerð en að því er fram kemur í skýrslu HMS reyndu eldvarnaeftirlitsmenn í þrígang að framkvæma eftirlit en komu alltaf að læstum dyrum.
Íbúar í nágrenni Bræðraborgarstígs 1 höfðu oft kvartað undan ástandi þess og umgengni við það við borgaryfirvöld í gegnum árin. Þeir höfðu m.a. vakið athygli á því að þeir teldu húsinu hafa verið breytt í gistiheimili í óleyfi og bentu á að þar byggi hópur erlendra verkamanna. Þó að sumum kvörtunum nágranna hafi verið fylgt eftir á síðustu árum, m.a. vegna umgengni á lóðinni, var ekkert aðhafst hvað varðar ábendingar um mögulega breytta notkun hússins.
Reyndist vera brunagildra
„Það er óásættanlegt fyrir okkar samfélag að aðstæður íbúa hússins skuli hafa verið þeim hætti sem lýst er í skýrslunni,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hann segir brunavarnir á Bræðraborgarstíg 1 ekki hafa verið í samræmi við lög. Erlent verkafólk er hópur sem lengi hafi verið vitað að væri í einna verstu stöðunni á húsnæðismarkaði á Íslandi. „Þessi skýrsla þarf að verða upphafspunktur úrbóta og til þess þurfa margir ólíkir aðilar að koma að borðinu. [...] Nú liggur þessi skýrsla fyrir og birtir okkur veruleika fólks sem býr í ósamþykktu leiguhúsnæði en sem reynist svo vera brunagildra. Við skuldum bæði þeim sem létust og þeim sem búa í óviðunandi húsnæði í dag að bregðast við.“