„Við sóttvarnalæknir óskum öllum landsmönnum gleðilegra jóla og biðjum alla að fara varlega, því þetta er ekki búið,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Fundurinn verður sá síðasti fyrir jól og var Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn mættur aftur eftir veikindaleyfi.
Landlæknir sagði veiruna á sveimi í samfélaginu og reynslan sýndi að hún næði sér á strik í hvert skipti sem fólk slakaði á. „Það eru vísbendingar uppi um að faraldurinn geti verið á uppleið og sú mikla hreyfing sem er á fólki undanfarið og hópamyndanir er kjörinn vettvangur fyrir veiruna og áhyggjuefni á þessum tíma,“ sagði Alma.
Bólusetningar meginumræðuatriði fundarins
Nokkuð hefur verið rætt og fjallað um bólusetningar hér á landi undanfarna daga. Í gær fundu stjórnvöld sig knúin til þess að leiðrétta í gær frétt í bandaríska vefmiðlinum Bloomberg þar sem sagði að Íslendingar hefðu einungis tryggt sér bóluefni fyrir rösklega 28 prósent þjóðarinnar. Þess má geta að í uppfærðri samantekt Bloomberg segir nú að Ísland hafi tryggt sér skammta fyrir 218 þúsund manns, 61 prósent landsmanna.
Alma landlæknir sagði að það ríkti ákveðin óvissa um hversu hratt okkur myndi berast bóluefni og „hvenær við verðum búin að bólusetja nógu marga til að stjórn náist á faraldrinum.“ Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður fullyrti á fundinum að hann hefði rætt við fólk „inni í stjórnkerfinu“ sem hefði tjáð sér að frétt Bloomberg væri í raun ekkert röng.
Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu lagði áherslu á það í máli sínu að jafnvel væri búið að tryggja nægilegt bóluefni til þess að tryggja allt að 435 þúsund manns hér á landi bólusetningu, ef svo fer að bóluefni Janssen – Johnson & Johnson – verði gefið með einum skammti, en ekki tveimur.
Hvenær bóluefnin koma nákvæmlega ríki þó enn óvissa um. Stjórnvöld hafa sett upp síðuna bóluefni.is, sem verður uppfærð með nýjustu opinberu upplýsingum.
Ráðuneytisstjórinn sagðist ekki almennilega átta sig á því af hverju það væri misræmi í frétt Bloomberg og því sem íslensk stjórnvöld segja. Hún gerði þó ráð fyrir því að ríki hefðu svarað upplýsingabeiðnum miðilsins með mismunandi hætti og væru jafnvel að veita miðlinum upplýsingar um mögulega skammta sem þau gætu fengið úr COVAX, bóluefnasamstarfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sem er aðallega hugsað til að tryggja lágtekjuríkjum bóluefni. Það hefði Ísland ekki gert.
„Þrír, fjórir, fimm mánuðir“
„Auðvitað er erfitt að segja til um hvenær nægilegt bóluefni berst til landsins, en við erum búin að tryggja okkur þetta með samningum,“ sagði Ásta. Hún sagði vonir standa til þess að búið yrði að bólusetja meginhluta landsmanna á næstu mánuðum.
„Þegar ég segi næstu mánuðum, meina ég þrír, fjórir, fimm mánuðir,“ sagði Ásta.
Á milli jóla og nýárs koma fyrstu skammtarnir af bóluefni Pfizer og BioNTech til landsins, alls 10 þúsund skammtar. Svo koma vikulegar sendingar af efninu út marsmánuð, í heildina fyrir 25-30 þúsund manns.
Ásta sagðist velta því fyrir sér af hverju það virtist svo víða eftirsóknarvert að ríki væru að tryggja sér bóluefni fyrir margfaldan íbúafjölda sinn og benti á að það hefði verið gagnrýnt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að auðug ríki væru að tryggja sér mikið umframmagn af bóluefnum í samningum.
Hún sagði að íslensk stjórnvöld hefðu talið hag sínum betur borgið að vera í samfloti með Evrópusambandinu varðandi kaup á bóluefnum og að það væri til þess fallið að styrkja samningsstöðu okkar.
Breska afbrigðið veldur usla
Alma landlæknir ræddi um afbrigði veirunnar sem hefur valdið miklu fjaðrafoki í Bretlandi og raunar víðar í Evrópu, en þónokkur ríki hafa lokað á flugferðir til og frá Bretlandi vegna vísbendinga um að það sé eitt ákveðið afbrigði orðið mjög útbreitt þar í landi og að það smitist hraðar en aðrir stofnar veirunnar.
Breskir ráðamenn rökstuddu stórhertar aðgerðir sínar yfir jólin með því að þetta afbrigði væri sérlega smitandi. Frakkar eru búnir að loka á alla vöruflutninga til og frá Bretlandseyjum, til öryggis. Bresk stjórnvöld sitja í dag neyðarfundi vegna stöðu mála.
„Þetta afbrigði er með óvenjumargar stökkbreytingar á þessu svokallaða „spike-“próteini, sem við höfum kallað gaddaprótein. Það virðist ekki vera þannig að þetta afbrigði valdi erfiðari sjúkdómi en önnur, það eru engar vísbendingar um að það sé hægt að sýkjast aftur af þessu afbrigði eða að bólusetning muni ekki virka verndandi gegn því, en það er verið að rannsaka þetta frekar og fylgjast mjög vel með,“ sagði Alma.
Fólk á að fara í sýnatöku ef það finnur fyrir minnstu einkennum
Alma landlæknir sagði að lykillinn að því að halda faraldrinum í skefjum núna á næstunni væri að fólk héldi sig heima og færi svo í sýnatöku, ef það fyndi fyrir minnstu einkennum sem gætu samræmst COVID-19.