Yfirvöld í Chile hafa greint frá því að í það minnsta 58 manneskjur á tveimur herstöðvum á Suðurskautslandinu hefðu greinst með kórónuveiruna. Þar með hefur faraldur COVID-19 náð til allra heimsálfa.
Hermálayfirvöld í Chile tilkynntu í upphafi vikunnar að 36 manns í Bernardo O‘Higgins-herstöðinni hefðu greinst jákvæðir fyrir veirunni og í gær bárust svo tíðindi af því að 21 hefði sýkst um borð í herskipinu Sargento Aldea. Þá greindist eitt smit í þorpinu Las Estrellas, þar sem hermenn búa á meðan dvöl þeirra á Suðurskautslandinu stendur. Enginn er sagður alvarlega veikur.
Borgarar fleiri ríkja dvelja á Suðurskautslandinu en engar fréttir um smit í þeirra röðum hafa enn borist.
Þrír greindust smitaðir um borð í herskipinu Sargento Aldea í síðustu viku og hafa allir skipverjar, 208 talsins, verið í einangrun um borð í skipinu síðan. Skipið hafði átt viðkomu á nokkrum stöðum á Suðurskautslandinu á tímabilinu 27. nóvember til 10. desember.
78 milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveiruna sem er 1 prósent jarðarbúa sem í heild telja um 7,8 milljarða. Rúmlega 1,7 milljón manna hafa látist vegna COVID-19.