„Þetta verkefni er aldeilis ekki búið þó að það sé komið nýtt ár,“ sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, við upphaf fyrsta upplýsingafundar almannavarna og landlæknis á árinu 2021. Eins og með síðasta ár er ljóst að við þurfum að gera margt með öðrum hætti.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að tiltölulega fáir hefðu greinst með COVID-19 um jólin. 35 greindust samtals innanland síðustu viku og af þeim var 21 í sóttkví við greiningu. Í gær greindust 10 og var meirihluti þeirra þegar í sóttkví. Hann minnti á að færri sýni hefðu verið tekin að undanförnu „þannig að við þurfum aðeins að sjá hvernig dagarnir þessar viku verða,“ sagði Þórólfur.
Á landamærunum hafa hins vegar fleiri verið að greinast með veiruna. Sautján hafa greinst með hið nýja breska afbrigði af veirunni, þar af einn innanlands en sá var fjölskyldumeðlimur manns sem greindist við landamærin.
Þau tímamót eru nú í faraldrinum að enginn liggur á gjörgæsludeild með COVID og enginn liggur inni á Landspítala með virkt smit en rúmlega tuttugu þó vegna afleiðinga sýkingarinnar. „Ég held að við komum nokkuð vel undan aðventu og jólum hvað faraldurinn áhrærir en þessi vika mun skera úr um hvort okkur hafi tkekist álíka vel upp um áramótin.“
Þórólfur gerði svo faraldurinn árið 2020 upp í stuttu máli. „Við getum sagt með sanni að okkur á Íslandi hafi tekist nokkuð vel upp að halda faraldurinn í skefjum þó að verulega hafi reynt á okkar innviði,“ sagði hann.
5.785 manns greindust með COVID-19 hér á landi á síðasta ári. Rúmlega 300 þurftu að leggjast inn á sjúkrahús og þar af hafa tuttugu þurft á öndunarvél að halda. 29 létust vegna sjúkdómsins á Íslandi á árinu 2020.
Þórólfur sagði að nú væri að hefjast lokaafli í baráttunni við faraldurinn. Bólusetning er hafin og tókst vel. Búið er að tryggja bóluefni fyrir alla landsmenn og vel það en þó er ekki enn ljóst hvenær þeir skammtar munu koma til landsins og hversu margir í senn. Fleiri bóluefni en Pfizer er innan seilingar. Í dag er von á markaðsleyfi í Evrópu fyrir bólefni Moderna og vonandi mun dreifingaráætlun þess liggja fyrir fljótlega.
„Ég held að við getum verið jákvæð og horft jákvætt fram á veginn núna með von um allt þetta bóluefni,“ sagði Þórólfur. „Ég held að við eigum líka að geta vonast eftir því að fá jafnvel bóluefni fyrr en talið hefur verið til þessa“.
Þórólfur og Alma Möller landlæknir minntu bæði á að enn yrði að halda áfram að sinna sóttvörnum. Hvenær hægt verði að slaka á muni ráðast af því hversu fljótt bóluefni mun berast til landsins.
Nýr reglugerð um sóttvarnaaðgerðir er væntanleg 12. janúar „og ef ekkert óvænt gerist með faraldurinn á næstu dögum verður vonandi hægt að grípa til einhverra tilslakanna,“ sagði Þórólfur.
Á fundinum var hann m.a. spurður út möguleika á útgáfu bráðabirgðaleyfis bóluefna hér á landi, þ.e. áður en Lyfjastofnun Evrópu hefur gefið sitt græna ljós. Hann minnti á að það væri Lyfjastofnun Íslands sem hafi heimild í lyfjalögum til að gefa út bráðabirgðaleyfi. En það væri tilgangslaust nema að sú vissa væri fyrir hendi að við gætum fengið viðkomandi bóluefni strax. Með því að gefa út slíkt leyfi væri Lyfjastofnun að taka ábyrgð á því að meta hvort að bóluefni væri öruggt eða ekki og að mati Þórólfs hefðum við ekki reynslu hér til að taka slíkar ákvarðanir. Hann sagði það sitt mat að ekki væri skynsamlegt að flýta ferlinu þar sem enginn vissa væri fyrir hendi um að það þýddi að við fengjum bóluefni fyrr en ella.
Samkvæmt samningi við Pfizer munum við fá 25 þúsund skammta af bóluefni fyrirtækisins fyrir lok mars en auk þess hefur verið samið við þrjú önnur fyrirtæki og dreifingaráætlanir þeirra munu liggja fyrir á næstunni.