„Verið heima“ eru skilaboðin sem Bretar hafa nú fengið. Í þriðja sinn. Mjög strangar takmarkanir hafa tekið gildi í landinu – þær ströngustu síðan í fyrstu bylgju faraldursins í mars. Skólar eru enn á ný lokaðir flestum nemendum og fólki er aðeins heimilt að fara út ef brýna nauðsyn ber til vegna vinnu sem ekki er hægt að inna af hendi innan veggja heimilisins. Einu sinni á dag er fólki heimilt að fara út til að hreyfa sig. Útgöngubannið mun standa í að minnsta kosti sex vikur. En stjórnvöld vilja ekki vekja of miklar vonir og segja að líklega muni þær standa fram í mars. Ástæðan er augljós: Fjöldi fólks með COVID-19 sem hefur þurft að leggjast inn á spítala hefur náð nýjum og áður óséðum hæðum. Sjúkrahúsin ráða einfaldlega ekki við mikið meiri fjölda.
Víðar í Evrópu sem og annars staðar í heiminum er einnig verið að herða eða framlengja strangar takmarkanir sem þegar voru í gildi. Aðgerðirnar eru sum staðar fyrirbyggjandi en annars staðar verður að segjast eins og er: Faraldurinn er kominn úr böndunum. Það á t.d. við um Los Angeles en þar hafa sjúkraflutningamenn verið beðnir að flytja ekki á sjúkrahúsin COVID-veika sem ekki tekst að lífga við á 20 mínútum. Skilaboðin eru ógnvekjandi. En sjúkrahúsin eru yfirfull og súrefni sem gefið er fólki í andnauð af skornum skammti.
Í gær greindist svo metfjöldi með kórónuveiruna í Japan, svo dæmi sé tekið, og íhuga stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi í Tókýó og næsta nágrenni.
Ítalir eyddu jólum og áramótum í skugga strangra samkomutakmarkana og máttu nær aðeins yfirgefa heimili sín til að fara til vinnu, til læknis eða í öðrum neyðartilvikum. Margir voru því skiljanlega að bíða eftir að tilslakanir yrðu gerða á fimmtudag líkt og stefnt hafði verið að. Á fundi ríkisstjórnarinnar, sem stóð langt fram á gærkvöldið, var ákveðið að setja aftur á „þriggja stiga kerfið“ sem felur í sér að hægt er að beita mismunandi takmörkunum á ólíkum svæðum. Allir barir og veitingastaðir á Ítalíu verða lokaðir um helgina og fólk á ekki að ferðast að nauðsynjalausu milli bæja og borga. Þá var ákveðið að fresta fyrirhugaðri opnun menntaskóla um að minnsta kosti nokkra daga og jafnvel vikur.
Ítalir áttu í miklu basli með að hefta útbreiðslu faraldursins um miðjan nóvember en þá greindust um 40 þúsund tilfelli á dag. Núna eru þau í kringum 20 þúsund daglega. En smitstuðullinn er sveiflukenndur og hundruð manna deyja daglega vegna COVID-19.
Stjórnvöld í Austurríki hafa ákveðið að framlengja samkomutakmarkanir sem verið hafa í gildi síðustu vikur þar til 24. janúar. Margar verslanir, veitingastaðir og barir þurfa því áfram að hafa lokað. Til stóð að aflétta takmörkunum um miðjan janúar en nú þykir það ekki lengur óhætt. Í byrjun desember hafði skref í átt að afléttingu verið stigið en um jólin þurfti að herða á að nýju.
Útgöngubann frá klukkan átta á kvöldin og til 6 á morgnana var sett á í borgum og bæjum Frakklands um áramótin. Utan þess tíma má fólk fara til og frá vinnu ef ekki er hægt að vinna heima og til að viðra gæludýrin sín svo dæmi séu tekin.
Í Þýskalandi verða aðgerðir framlengdar til 31. janúar. Aðgerðir þar í landi voru hertar í desember er smitum tók að fjölda. Verslanir eru flestar lokaðar en matvöru- og lyfjaverslanir mega hafa opið. Þá hafa skólar verið lokaðir síðustu vikur. Heilbrigðisráðherrann Jens Spahn sagði í viðtali um helgina að hann vildi sjá daglegan fjölda smita fara verulega niður áður en að aðgerðum yrði aflétt.
Á Norðurlöndunum eru einnig í gildi strangar takmarkanir. Við þekkjum stöðuna hér á landi, aðeins tíu mega koma saman, en Danir hafa nú tekið ákvörðun um að ganga skrefinu lengra. Frá og með gærdeginum mega aðeins fimm koma saman í stað tíu. Þar í landi sem og víðar óttast menn hið svokallaða breska afbrigði veirunnar sem talið er vera meira smitandi en flest önnur. Í Danmörku hafa nokkrir tugir manna greinst með þennan stofn veirunnar. Næstu dagar og vikur verða svipaðar fyrir Dani og þegar faraldurinn braust fyrst út í Evrópu fyrir rúmlega ári. Þá var það einnig Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sem stóð á blaðamannafundi og tilkynnti fordæmalausar aðgerðir og lokun landamæra. Slíkt þótti næstum óhugsandi. En nú er þetta orðið kunnuglegt.
Ástandið á sænskum sjúkrahús fer versnandi. Á fyrstu fimm dögum ársins létust 258 vegna COVID-19. 378 eru á gjörgæsludeildum. Í gær höfðu 8.985 látist vegna sjúkdómsins frá upphafi faraldursins. Þrettán tilfelli af breska afbrigði veirunnar hafa greinst í Svíþjóð.
Sænsk stjórnvöld settu í lok desember á ferðabann frá Bretlandi og Danmörku vegna hins breska afbrigðis veirunnar. Sænskir ríkisborgarar geta ferðast frá þessum löndum og til Svíþjóðar en aðrir ekki. Aðeins átta mega koma saman í Svíþjóð en þær takmarkanir ná þó ekki til skóla, vinnustaða og veitingahúsa svo dæmi séu tekin.
Þeir sem ferðast til Noregs þurfa nú að fara í sýnatöku við komuna til landsins. Nýjar reglur hvað það varðar tóku gildi í vikunni. Norðmenn ætla ekki að tefla árangri sínum í baráttunni við kórónuveiruna hingað til í tvísýnu og hafa yfirvöld hvatt til að landsmenn taki sér hlé frá félagslífi næstu dagana eða til að minnsta kosti 18. janúar. Aðeins fimm mega koma saman.
Biðin eftir bóluefni gæti dregist á langinn. Belgar verða nú að sætta sig við að fá helmingi minna af bóluefni Pfizer en þeir höfðu talið sig geta fengið í fyrsta skammti. Sama staðreynd blasti við okkur Íslendingum fyrir nokkrum vikum. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu í gær kom fram að gengið sé út frá því að bóluefni Moderna hljóti náð fyrir augum sérfræðinga Evrópsku lyfjastofnunarinnar í dag. Samkvæmt samningum munu Íslendingar fá 5.000 skammta af því bóluefni í janúar og febrúar og eftir það mun afhendingin verða hraðari.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í fyrradag að jafnvel myndi bólusetning ganga hraðar fyrir sig hér á landi en útlit var fyrir.