Gefa skal seinni skammt bóluefnis BioNtech og Pfizer innan við þremur vikum eftir þann fyrsta. Þetta hefur þýska líftæknifyrirtækið BioNtech ítrekað eftir að áætlanir Breta, Dana og fleiri, um að fresta seinni skammtinum, komust í hámæli.
Fyrirtækið segir að hin gríðargóða vörn bóluefnisins, sem sýnt var fram á í klínískum rannsóknum, náist með því að gefa tvo skammta af því með 21 dags millibili. Ekki hafi enn verið sýnt fram á öryggi og góða virkni efnisins miðað við aðrar tímasetningar.
Dönsk og bresk yfirvöld segjast ætla að fresta því að gefa fólki seinni skammt lyfsins í sex til tólf vikur eftir að það fær hinn fyrri.
Í klínískum rannsóknum á bóluefni Pfizer og BioNtech var sýnt fram á að lyfið veitti 95 prósent vörn gegn því að sýkjast af COVID-19. Þá var miðað við að bóluefnið yrði gefið í tveimur skömmtum með þriggja vikna millibili. Sýnt þykir að fyrri skammturinn veitir ágæta vörn en ekki er vitað með neinni vissu hversu lengi hún endist.
Þýsk stjórnvöld eru að íhuga að fara sömu leið og Bretar og Danir. Ástæðan er sú að hið breska afbrigði veirunnar sem talið er meira smitandi en flest önnur, er að breiðast út. Því vilja yfirvöld hraða bólusetningu, gefa helmingi fleiri fyrstu sprautuna en áætlanir gerðu ráð fyrir.
10 þúsund skammtar af bóluefni Pfizer og BioNtech komu hingað til lands milli jóla og nýárs. Þeir dugðu til að bólusetja um 5.000 manns.
Dregur úr ábyrgð framleiðandans
Lyfjastofnun Evrópu hefur ítrekað í dag að markaðsleyfi til bólusetningar með bóluefni fyrirtækjanna byggi á því að það sé gefið í tveimur skömmtum með „að minnsta kosti 21 dags millibili“ og til að breyta því þurfi að afla fleiri rannsóknargagna. Ef sex vikur eða lengra líður á milli skammta sé ábyrgð framleiðenda bóluefnisins minni en annars ef eitthvað kemur upp á.
Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna hefur einnig ítrekað að til að breyta tilhögun bólusetningar sem lyfjafyrirtækin sjálf mæla með þurfi að gera frekari klínískar rannsóknir. Breytingar á ráðleggingum lyfjafyrirtækjanna gætu ógnað lýðheilsu.
Þar sem hraði á þróun og rannsóknum bóluefna er hraðari nú en nokkru sinni fyrr eru skammtastærðir og tímalengd milli skammta eitt þeirra atriða sem eiga eftir að koma í ljós.