Hertar sótvarnaaðgerðir taka gildi í Danmörku á morgun, miðvikudaginn 6. janúar.
Danska ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun til að ræða næstu skref í baráttunni gegn faraldri COVID-19. Á blaðamannafundi sem haldinn var í kjölfarið sagði forsætisráðherrann að enn þurfi að herða reglur og sagði ástæðuna m.a. hið breska afbrigði veirunnar sem nú hefur greinst þar og er talið meira smitandi en aðrir stofnar.
Samfélagssmit er orðið útbreitt, sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra og að því neyddust stjórnvöld til að grípa til harðari aðgerða. Aðeins fimm mega koma saman í stað tíu áður og í verslunum og almannarými verður tveggja metra regla í stað eins metra nálægðarmarka tekin upp. Sagðist forsætisráðherrann óttast að annars myndi heilbrigðiskerfið ekki ráða við álagið. Frá og með morgundeginum verða barir og veitingahús lokuð en heimsending á mat er leyfileg.
Á blaðamannafundinum bað Frederiksen Dani að hafa eftirfarandi til hliðsjónar:
Að allir séu heima eins mikið og þeir mögulega geta.
Að fólk vinni heima ef það er gerlegt.
Aðeins einn frá hverju heimili fari að versla.
Að fólk aflýsi öllum fundum og öðrum samkomum og almennt hitti ekki aðra en sína allra nánustu fjölskyldu.
Tæplega 173 þúsund manns hafa greinst með COVID-19 í Danmörku frá upphafi faraldursins. Í dag liggja 942 á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins.