Borgarstjóri Lundúna segir ástandið á sjúkrahúsum í borginni krítískt vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann segir hættu á því að sjúkrahúsin ráði ekki við álagið.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt var á vef borgarstjórnarinnar í dag.
Frá 30. desember til 6. janúar fjölgaði sjúklingum sem lagðir voru inn á sjúkrahús í London vegna COVID-19 um 27 prósent. Um áramótin lágu 5.524 á sjúkrahúsi en í gær voru þeir 7.034. Á sama tímabili hefur þeim sem þurfa að vera í öndunarvél á gjörgæslu fjölgað um 42 prósent. Samtals þurfa 908 sjúklingar á slíkri meðferð að halda í dag.
Á síðustu þremur sólarhringum hafa 477 manns látist á sjúkrahúsum í London vegna COVID-19. „Staðan í London er mjög tvísýn núna vegna þess að veiran er að breiðast út stjórnlaust,“ sagði Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna.
Þriðjungi fleiri hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús í þessari nýjustu bylgju faraldursins í borginni en í fyrstu bylgjunni í mars og apríl í fyrra.
Gríðarlegt álag er á öllum starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu sem og þeim sem annast sjúkraflutninga. Álagið á þá síðarnefndu er það mesta í sögunni. Um 8.000 beiðnir um bráðaflutninga berast nú daglega samanborið við um 5.000 á annasömum dögum síðustu ára.
Borgarstjórinn hefur því lýst yfir neyðarástandi (major incident) og getur þar með sótt frekari stuðning til ríkisvaldsins til að takast á við stöðuna.