Knattspyrna er sú íþrótt sem flestir landsmenn kjósa að stunda og iðkendum hennar hefur fjölgað um næstum tíu þúsund á einum áratug, eða um nálægt 50 prósent. Þeim sem velja að æfa körfubolta hefur fjölgað um 25 prósent á sama tímabili en hlutfallsleg fjölgun hjá þeim sem kjósa að æfa handbolta var tíu prósent.
Þetta má lesa úr tölfræði sem unnin er úr gögnum sem íþrótta- og ungmennafélög innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) skiluðu rafrænt á árinu 2020 í gegnum Felix - félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ. Um er að ræða gögn um iðkun íþrótta árið 2019 og voru þau sótt í gagnagrunn Felix í september 2020.
Tæplega 50 þúsund nýir iðkendur frá 2009
Árið 2009 voru iðkendur þeirra íþróttagreina sem skráðar eru innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands alls 112.366 talsins. Næsta áratuginn, til loka árs 2019, fjölgaði iðkendum í 159.505 talsins, eða um 47.139.
Knattspyrna er sú íþrótt sem flestir stunda, eða alls 29.998 iðkendur í lok árs 2019. Þeim hafði fjölgað um 9.915 á tíu árum sem þýðir að 21 prósent allra nýrra iðkenda völdu knattspyrnu til að stunda. Þau félög sem bjóða upp á æfingar í knattspyrnu voru 128 talsins árið 2019.
Knattspyrna ber auk þess höfuð og herðar yfir aðrar íþróttagreinar þegar kemur að vinsældum hjá yngri iðkendum. Af iðkendum hennar voru 21.530 17 ára eða yngri. Rúmlega 65 prósent yngri iðkenda eru karlkyns en um 35 prósent kvenkyns. Kvenkynsiðkendum hefur fjölgað meira í yngri flokkum knattspyrnufélaga landsins en karlkyns síðastliðinn áratug.
Fjórðungsaukning í körfuboltanum
Sú íþrótt sem er að öllu leyti hópíþrótt sem komst næst knattspyrnu í fjölda iðkenda í lok árs 2019 var körfubolti. Hann stunduðu 8.313 á þeim tíma. Iðkendum hefur fjölgað um alls 1.684 á áratug, eða um 25,4 prósent. Af þeim sem æfðu körfubolta árið 2019 voru 5.744 undir 18 ára aldri, eða 69 prósent allra iðkenda. Alls bjóða 60 félög upp á æfingar í körfubolta.
Þjóðaríþróttin handbolti kemur þar næst. Í lok árs 2019 æfðu 7.685 manns handbolta. Þeim fjölgaði einungis um 0,1 prósent milli áranna 2018 og 2019 og 716 á áratug. Það þýðir að hlutfallsleg fjölgun iðkenda í handbolta frá 2009 og til loka árs 2019 var 10,2 prósent. Á sama tíma fjölgaði iðkendum í íþróttum alls um 42 prósent.
Þeim sem æfa frjálsar fækkar
Næst flestir iðkendur hérlendis eru í golfi. Þeir voru alls 21.215 í lok árs 2019 og hafði fjölgað um 5.444 á áratug, eða 34,5 prósent. Öfugt við vinsælustu íþróttina, knattspyrnu, þá eru golfararnir langflestir yfir 18 ára aldri. Alls eru 89 prósent þeirra fullorðnir.
Fjöldi þeirra sem æfa fimleika hefur næstum tvöfaldast á áratug. Þeir voru 7.495 árið 2009 en 14.141 tíu árum síðar.
Þeir sem stunda hestaíþróttir hefur fjölgað um rúmlega þúsund á áratugnum milli 2009 og 2019 og iðkendur í sundi fóru úr 2,714 í 3.951. Fjöldi iðkenda í badminton stóð nánast í stað á umræddum áratug. Þeim fjölgaði 102 í 5.011, eða um tvö prósent.
Af þeim íþróttum sem eru með yfir eitt þúsund iðkendur eru frjálsar íþróttir sú sem er að glíma við mesta fækkun iðkenda. Árið 2009 voru þeir 5.348 og fjöldinn var að vaxa ár frá ári. Árið 2010 höfðu til að mynda 302 nýir iðkendur bæst við frá árinu á undan.
Í árslok voru iðkendur frjálsra íþrótta samkvæmt gagnagrunni ÍSÍ og UMFÍ, hins vegar 4.397. Þeim hafði þá fækkað um 18 prósent frá 2009 og 22 prósent frá 2010.