Aðeins tveir einstaklingar greindust innanlands í gær með COVID-19 og voru þeir báðir í sóttkví. Í fyrradag greindust ellefu með sjúkdóminn innanlands sem var nokkur fjöldi frá dögunum á undan. Faraldurinn hefur hins vegar verið í stöðugri rénun síðustu vikur. Í desember hafa innan við fimmtán greinst alla daga og flesta daga innan við tíu. Tæplega tvö þúsund sýni voru tekin.
Á landamærunum greindust í gær níu mann smeð virk smit og sex til viðbótar bíða eftir niðurstöðu mótefnamælingar. Nýgengi smita er nú jafnt bæði innanlands og á landamærunum; 19,6 á hverja 100 þúsund íbúa.
Á upplýsingafundi gærdagsins sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að 22 hefðu greinst með afbrigði veirunnar sem fyrst uppgötvaðist í Bretlandi. Af þeim hefðu þrír smitast innanlands. Allir höfðu þeir verið í samskiptum við þá sem greinst hefðu með afbrigðið á landamærunum og voru því í einangrun.
Nokkur umræða hefur verið um hvort að bóluefni sem nú er komin á markað veiti vörn gegn sýkingu af völdum þessa nýja afbrigðis. Lyfjarisinn Pfizer, sem framleiðir bóluefnið sem fyrst fékk markaðsleyfi í Evrópu, hefur nú greint frá því að rannsóknir sýni að efnið veiti vörn gegn breska afbrigðinu.
Tvö bóluefni hafa þegar fengið markaðsleyfi hér á landi. Um 5.000 manns, framlínustarfsmenn og íbúar hjúkrunarheimila, fengu fyrri sprautu af bóluefni Pfizer-BioNtech í lok desember. Í vikunni fékk bóluefni Moderna markaðsleyfi og sagði sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í gær að mögulega kæmi fyrsta sending af því þegar í næstu viku.