Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að ákæra Donald J. Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir embættisbrot. Á meðal þess sem Trump er ákærður fyrir er að ógna öryggi Bandaríkjanna, með því að hvetja með lygum til þess að æstur múgur lét til skarar skríða síðasta miðvikudag.
Alls samþykktu 231 þingmenn að ákæra Trump en 197 voru á móti. Þeir sem samþykktu ákæruna eru allir þingmenn Demókrataflokksins auk tíu þingmanna Repúblikanaflokksins.
Í ákæruskjalinu segir að forsetinn hafi ógnað heilindum lýðræðiskerfisins, haft afskipti af friðsamlegum valdaskiptum og stefnt þinginu í hættu með því að hvetja æstan múg til ofbeldisverka gegn ríkisstjórn Bandaríkjanna, með ræðu sinni á mótmælafundi í Washington fyrir viku síðan.
Öldungadeildin á ekki að koma saman fyrr en 19. janúar, degi áður en Biden tekur formlega við, og Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í deildinni, hefur sagt að hún verði ekki kölluð til fyrr þrátt fyrir að ákæran yrði samþykkt.
Því er nær öruggt að málið mun ekki leiða til embættismissis fyrir Trump verði hann sakfelldur, enda mun hann verða hættur sem forseti þegar niðurstaða fæst.
Hins vegar er hægt að tryggja að þeir forsetar sem verða sakfelldir fyrir embættisbrot geti ekki boðið sig fram að nýju í embætti, en Trump hefur viðrað þá hugmynd að reyna aftur við forsetaframboð eftir fjögur ár.
Þetta er í annað sinn sem Trump er ákærður af fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir embættisbrot. Hann er fyrsti forseti í sögu Bandaríkjanna sem það hefur hent. Raunar er þetta einungis í fjórða sinn sem forseti er ákærður fyrir embættisbrot og því mun helmingur þeirra mála vera gegn Trump.
Síðast var Trump ákærður í desember í fyrra fyrir að þrýsta á um rannsókn á Joe Biden, þá forsetaframbjóðanda, en líka með því að fylgja ekki formlegum leiðum í samskiptum við önnur ríki, í þessu tilfelli Úkraínu. Með athæfi sínu var Trump talinn hafa tekið sérhagsmuni sína fram yfir þjóðarhagsmuni í samskiptum við annað þjóðríki.
Öldungadeildin sýknaði hann þá af ákærunni.