Alls hafa 37 greinst með hið breska afbrigði veirunnar, flestir á landamærunum en fjórir innanlands. Allir voru þeir í tengslum við þá sem greindust á landamærunum en frekari útbreiðsla út frá þessum hópi hefur ekki orðið. Í gær greindust fjórir með kórónuveiruna innanlands og jafnmargir á landamærunum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur því stöðuna nokkuð góða innanlands en leggur áherslu á mikilvægi þess að allir haldi vöku sinni. Það sem enn veldur áhyggjum er hversu margir eru að greinast með virk smit á landamærunum. Þó að aðgerðir á landamærum, tvöföld skimun með sóttkví á milli, hafi gefist vel til þessa telur Þórólfur að í ljósi aukinnar útbreiðslu erlendis og sérstaklega vegna mikillar útbreiðslu hins bráðsmitandi breska afbrigðis sé hætta á því að smit berist inn í landið og út í samfélagið. Nefndi Þórólfur sem dæmi að fyrir nokkrum vikum hafi virk smit meðal farþega verið vel undir einu prósenti en nú er hlutfallið komið yfir eitt prósent og í sumum vélum hefur allt upp í tíu prósent farþega reynst smitaður. „Og því ljóst að við þurfum að bregðast við,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hann lagði því til við heilbrigðisráðherra 6. janúar að möguleiki á fjórtán daga sóttkví yrði afnumið og til vara að þeir sem myndu velja þann kost frekar en skimun myndu dvelja í farsóttahúsi þar sem hægt væri að hafa eftirlit með því.
Ráðuneytið hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að vafi leiki á lagastoð fyrir báðum þessum úrræðum. Þórólfur sendi því nýjar tillögur til ráðherra í gær um að allir þeir sem hingað ferðast, nema börn fædd árið 2005 eða síðar og þeir sem þegar hafa fengið COVID-19, framvísi nýju (ekki eldra en 48 klukkustunda) neikvæðu COVID-prófi við upphaf ferðar til landsins og aftur við komu hingað. Áfram verði þó allir að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða tvöfaldrar skimunar.
Enn ein leiðin lögð til
„Ég get ekki lagt dóm á hvaða leið skilar mestu,“ svaraði Þórólfur spurður um hvort þessi leið væri sambærileg við þá sem hann lagði fyrst til. „Við verðum að tryggja það að smit leki ekki fram hjá okkur á einhver máta og þetta er leið til þess fyrst að hin leiðin var ekki fær.“
Þó að tilslakanir innanlands hafi tekið gildi í gær biðlaði Þórólfur til almennings að halda áfram að virða grunnsóttvarnarreglur sem allir eiga nú að þekkja. „Nú er ekki tími til að slaka á og sleppa fram af sér beislinu. Við verðum að halda vöku okkar þar til við höfum náð betri tökum á og útbreiddari bólusetningu.“
Í næstu viku koma 3.000 skammtar til viðbótar af Pfizer-BioNtech bóluefninu til landsins. Þeir verða notaðir til að bólusetja eldra fólk. Í þeirri viku stendur einnig til að þeir sem þegar hafa fengið fyrri sprautu af því efni fái þá síðari. „Ég vil biðla til allra að sýna biðlund,“ sagði Þórólfur. „Það er ljóst að það eru margir sem vilja vera framar í röðinni og telja á sig hallað. En þetta tekur tíma.“