Starfsmenn flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum hafa fylgst með þeim sem vilja nýta þann möguleika að fara í fjórtán daga sóttkví frekar en í tvöfalda sýnatöku „og margoft séð að þar er ekki áhugi á því að halda tveggja vikna sóttkví,“ sagði Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum. „Við höfum náð að snúa fjölmörgum frá og telja þá á að fara í sýnatöku.“
Frá því í október hefur tekist að telja um 210 manns af því að velja sóttkví fremur en skimun. „Í þeim hópi hafa greinst fjölmörg smit,“ sagði Sigurgeir sem var gestur á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Í einum hópi voru um fjörutíu manns sem vildu fara í sóttkví í fjórtán daga. Harðneitaði sýnatöku. En eftir miklar fortölur og eftir að við tókum á okkur að greiða sýnatökugjaldið sem þá var, fóru þau í sýnatöku. Á annan tug smita var í þessum hópi. Það hefði ekki verið gott ef það hefði komist inn í landið.“
Sigurgeir fjallaði sérstaklega um komu erlendra starfsmanna til landsins og sagði það ganga Það ganga mjög misjafnlega að fá skilning þeirra á meðal á gildandi reglum. „Við biðlum til atvinnulífsins að sýna samfélagslega ábyrgð og gæti þess að starfsmenn þeirra sem eru að koma frá útlöndum virði sóttkvína og seinni sýnatökuna og komi ekki til starfa fyrr en að því loknu.“
Á ýmsu hefur gengið við landamærin frá upphafi faraldursins og eitt atriði sem Sigurgeir nefndi sérstaklega var það sem gerðist í kjölfar skilgreiningar á öruggum löndum í sumar, þegar farþegar frá sex löndum þurftu ekki að sæta sömu reglum á landamærum og aðrir. „Þá fórum við að sjá að við fólk fór að smygla sér, nánast, í gegnum þessi lönd inn til Íslands og ekki segja frá því að það væri að koma frá öðrum löndum sem ekki töldust örugg.“
Reglum hefur oftsinnis verið breytt á landamærunum en fyrirkomulagið hefur þó verið óbreytt frá því 19. ágúst; hægt er að velja á milli sóttkvíar í tvær vikur og tvöfaldrar skimunar með sóttkví á milli. „Þessi tvöfalda skimun hefur margsannað sig,“ sagði Sigurgeir og benti á að yfir 600 smit hafi verið „greind og stöðvuð“ þeim þeim hætti.
Starfsmenn flugstöðvardeildarinnar hafa síðustu daga, að tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, aukið eftirlit ásamt smitrakningarteymi, með þeim sem velja fjórtán daga sóttkvína. „Síðasta ár var erfitt,“ viðurkenndi Sigurgeir. „Þetta hafa verið endalausar áskoranir og breytingar á reglum til að framfylgja. [...] En jákvæðnin og aðlögunarhæfnin hafa komið okkur áfram.“
Smuga á landamærunum
Sóttvarnalæknir hefur í tvígang lagt til að fjórtán daga sóttkví verði afnumin. „En hann hefur ekki komist áfram með það,“ sagði Sigurgeir. „Þetta er smuga á landamærunum.“ Skýringin á því að þessi leið hafi reynst ófær er sú að sóttvarnalögin eru gömul. „Það er óviðunandi staða að ekki sé enn búið að laga löggjöfina núna í miðjum janúar árið 2021.“
Sagði Sigurgeir að sóttvarnalækni skorti skýrari heimildir og sömu sögu væri að segja um lögreglu, t.d. til frávísunar á landamærum. „Nú er sóttvarnalæknir að reyna að bregðast við með þrautavaratillögu, að taka við nýlegum neikvæðum prófum frá útlöndum. Vonandi gengur það hratt í gegn þangað til sóttvarnalögin verða styrkt hið fyrsta. Oft var þörf á skilvirkri lagasetningu en nú er nauðsyn.“