Bresk stjórnvöld kynntu í gær viðtækt ferðabann. Allir sem hafa verið í ríkjum Suður-Ameríku, í Portúgal eða á Grænhöfðaeyjum eða millilent þar undanfarna 10 daga mega ekki lengur koma til Bretlands, að breskum eða írskum ríkisborgurum og öðrum sem hafa landvistarleyfi í Bretlandseyjum undanskildum.
Í dag bættu Bretar um betur og sögðu að frá og með mánudegi þyrfti hver einn og einasti flugfarþegi á leið til Bretlands að framvísa neikvæðu COVID-prófi áður en hann fengi að setjast upp í flugvél. Samkvæmt frásögn BBC af blaðamannafundi Borisar Johnson verða þessar reglur í gildi til 15. febrúar. Þetta á líka við um flug frá Íslandi.
Ástæðurnar fyrir þessum hertu aðgerðum eru sagðar ný og óþekkt afbrigði kórónuveirunnar, á borð við eitt sem greinst hefur í Brasilíu og vísindamenn hafa áhyggjur af að gæti mögulega leitt til þess að þau bóluefni sem hafa verið þróuð gagnvart kórónuveirunni virki síður. Ein af nokkrum stökkbreytingum sem hefur orðið á þessu tiltekna afbrigði mun vera svipuð og sú sem er til staðar í því afbrigði sem kennt hefur verið við Suður-Afríku.
Grant Shapps, samgöngumálaráðherra Bretlands, ræddi þessar nýju takmarkanir við BBC í morgun og sagði að um varúðarráðstöfun væri að ræða. Bretland, sem væri komið af stað með bólusetningarherferð sína, mætti ekki við frekari vandkvæðum. Hann sagði ekki talið að þetta tiltekna „brasilíska afbrigði“, sem greindist fyrst þar í landi í júlí, hefði fundist í Bretlandi.
Hert á reglum þvers og kruss
Bretar hafa hins vegar verið að glíma við mikla og hraða útbreiðslu svokallaðs „bresks afbrigðis“ veirunnar, sem greindist fyrst þar í landi í október og talið er meira smitandi en önnur afbrigði sem náð hafa fótfestu. Strangar sóttvarnarráðstafanir eru í gildi í landinu, skólar lokaðir og fólki sagt að halda sig sem mest heima.
Á sama tíma og Bretar herða á landamærum sínum til að verjast utanaðkomandi nýjum afbrigðum veirunnar hafa mörg ríki hert takmarkanir sínar á landamærum til þess að lágmarka áhættuna á að afbrigðið sem þar er í mestri útbreiðslu berist til sín.
Japanir greindu afbrigðið sem fyrst sást í Amazonas
Fréttir um þetta nýja „brasilíska afbrigði“ hafa sprottið upp undanfarna daga, eftir að smitsjúkdómastofnun Japans greindi frá því í tilkynningu 12. janúar að það hefði fundist í fjórum einstaklingum sem komu til landsins 2. janúar eftir dvöl í Amazonas-fylkinu í Brasilíu.
Japanska stofnunin benti á að stökkbreytingarnar sem væri að finna í afbrigðinu væru að hluta þær sömu og í þeim sem greinst hafa og valdið áhyggjum í Bretlandi og Suður-Afríku. Rannsóknir á þessu standa yfir.
Súrefnisskortur í Manaus
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar sagt fregnir af skelfingarástandi sem skapast hefur á sjúkrahúsum í Amazonas-fylki og þá helst í fylkishöfuðborginni Manaus. Fjöldi innlagna vegna COVID-19 hefur aukist hratt að í borginni, þar sem um tvær milljónir manna búa.
Súrefni skortir tilfinnanlega. Samkvæmt umfjöllun New York Times hefur þörf spítalanna í ríkinu fyrir súrefni farið yfir 70 þúsund rúmmetra á sólarhring. Þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir í mars fór súrefnisþörfin hæst í 30 þúsund rúmmetra á sólarhring.
Chegada de oxigênio em Manaus. Veja o desesperos parentes dos pacientes. Triste demais 😢🥺 pic.twitter.com/A4jBhrF3pt
— douglas @campistapolemico (@campistap) January 15, 2021
Brasilíski herinn er byrjaður að flytja súrefni með flugvélum til Manaus. Til þessa hefur þurft að vísa fólki frá og sjúklingar sem þurfa öndunaraðstoð hafa verið fluttir til annarra fylkja landsins.
Margir eru þegar sagðir hafa látist vegna súrefnisskortsins og sumum deildum á sjúkrahúsum í Manaus hefur hreinlega verið lýst sem „köfnunarklefum“, þar sem sjúklingar látast án þess að örþreytt heilbrigðisstarfsfólk fái ráðið við stöðuna. Heilbrigðisstarfsfólk hefur þurft að grípa til þess ráðs halda lífi í fólki með handvirkum súrefnispumpum.
Neyðarkall vegna fyrirbura
CNN í Brasilíu sagði frá því í dag að fylkisyfirvöld hefðu óskað eftir því að 60 fyrirburar yrðu fluttir með frá spítölum í Amazonas og til annarra fylkja Brasilíu. Það eru nefnilega ekki bara COVID-sjúklingar sem þurfa súrefnið.„Hér eru engin laus rúm, engir súrefniskútar, ekkert. Það eina sem við eigum eftir er trúin,“ hefur AFP fréttastofan eftir íbúa í Manaus.
Breska blaðið Guardian ræðir við Jesem Orellana, faraldsfræðing í Manaus, sem segir fordæmalausar hörmungar vera að ríða yfir í borginni. „Á næstu klukkustundum verður Manaus sögusvið eins sorglegasta kafla COVID-19 faraldursins sem heimurinn hefur séð.“