Allir sem til Íslands koma verða skyldaðir til þess að fara í skimun við komuna, nema læknisfræðileg rök megi færa fyrir öðru. Reglugerð um þetta tekur gildi strax í dag, samkvæmt því sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði við fréttamenn bæði Bylgjunnar og RÚV í hádeginu í dag.
Möguleikinn á því að ferðamenn velji 14 daga sóttkví í stað skimunar verður ekki lengur til staðar, en það er í takt við það sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til við heilbrigðisráðherra í minnisblaði sínu 6. janúar.
Heilbrigðisráðherra hafði áður sagt að óvíst væri hvort lagalegar stoðir væri að finna í núverandi sóttvarnalögum til þess að hægt væri að fara eftir tillögum sóttvarnalæknis.
„Við teljum að lögin séu nægilega styðjandi við þessa ákvörðun vegna þess hve alvarleg staðan er. Því gríp ég til þessa neyðarúrræðis,“ sagði Svandís Svavarsdóttir í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hún sagði einnig að þessi ákvörðun væri tekin í ljósi fregna að nýjum og meira smitandi afbrigðum kórónuveirunnar og aukinnar smittíðni á landamærum Íslands.
Fram kom í frétt á mbl.is í morgun að alls hefðu 41 tilfelli hins svokallaða breska afbrigðis veirunnar greinst Íslandi til þessa, 35 hjá komufarþegum og sex tilfelli innanlands, sem hefðu í öllum tilfellum verið rakin til ferðamanna.
„Varfærin skref“ til vægari landamæraaðgerða 1. maí
Ríkisstjórnin samþykkti einnig á fundi sínum í morgun að fyrirkomulag aðgerða á landamærum yrði með sama móti fram til 1. maí. Þá verða tekin „varfærin skref“ til afléttingar sóttvarnaaðgerða, sem munu taka mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega.
„Frá og með 1. maí verður byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins,“ segir í tilkynninguum þetta á vef stjórnarráðsins.
Skrefin virðast nokkuð varfærin. Áfram verður gerð almenn krafa um tvær skimanir og fimm daga sóttkví á milli hjá þeim sem koma frá grænum og appelsínugulum ríkjum, en fólk sem þaðan kemur mun þó að geta framvísað neikvæðri niðurstöðu úr fyrri skimun sem framkvæmd er á brottfararstað. Allir verða skimaðir einu sinni við komuna til landsins.
Þeir sem eru með neikvæða niðurstöðu að utan þurfa þó ekki að fara í sóttkví né síðari skimun á Íslandi.
Mótefnavottorð og bólusetningarvottorð verða einnig tekin gild, líka hjá þeim sem koma frá rauðum eða gráum ríkjum, þar sem faraldurinn er í uppsveiflu eða upplýsingar um stöðu hans liggja ekki fyrir.
„Með því að greina svo snemma frá fyrirkomulagi sóttvarnaráðstafana á landamærum sem stefnt er að í vor er framkvæmdar- og söluaðilum gert kleift að undirbúa breytingar vel. Áhættumat litakóðunarkerfis tekur mið af óvissu um þróun faraldurs og gerir meiri fyrirsjáanleika mögulegan,“ segir í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins.