Á síðastliðnum þremur sólarhringum hafa fimm einstaklingar greinst með COVID-19 innanlands, þar af tveir utan sóttkvíar. 25 hafa greinst á landamærum á sama tímabili en ekki allir þó með virk smit. Í gær greindust fjögur smit innanlands. 143 eru í einangrun vegna COVID-19.
Nú hafa 43 greinst með breska afbrigðið hér á landi, þar af sjö innanlands. Allir tengjast þeir fólki sem greindist á landamærunum. Enginn á landamærum hefur greinst með suðurafríska afbrigði veirunnar eða afbrigði frá Brasilíu en þau líkt og það breska eru talin meira smitandi en fyrri afbrigði.
Mjög lítið samfélagslegt smit
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að út frá ýmsum þáttum mætti segja að mjög lítið samfélagslegt smit væri í gangi á landinu. Sömu sögu er ekki að segja frá öðrum ríkjum og víða hefur verið hert verulega á aðgerðum á landamærum. Er því ekki ráðlegt að fara til útlanda að nauðsynjalausu.
„Við höfum ákveðnar áhyggjur af hversu margir eru að greinast með smit á landamærunum,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. Á föstudaginn setti ráðherra nýja reglugerð um að allir sem hingað koma þurfi að fara í tvöfalda skimun. „Vonandi mun það duga til þess að hindra frekari útbreiðslu innanlands,“ sagði Þórólfur. Hann minnti svo á að þó að slakað hefði verið á takmörkunum innanlands þyrftu allir enn að gæta að einstaklingsbundnum sýkingarvörnum og forðast hópamyndanir.
Um 3.500 fá bólusetningu í vikunni
Í vikunni munu 5.000 manns fá síðari skammtinn af bóluefni Pfizer, framlínufólk og íbúar hjúkrunarheimila sem fengu fyrri skammtinn í lok síðasta árs. Þá munu 3.500 manns í elstu aldurshópum fá sína fyrstu sprautu af bóluefninu í vikunni en sá skammtur kom til landsins í morgun.
Þegar fyrstu 10 þúsund skammtarnir af bóluefni Pfizer-BioNtech komu í lok desember var ákveðið að bólusetja 5.000 manns og geyma hina skammtana til að gefa sama hópi seinni skammtinn. Frá þeirri aðferð hefur nú verið horfið að sögn sóttvarnalæknis. Í síðustu viku komu 1.200 skammtar af bóluefni Moderna og jafnmargir voru bólusettir. Það sama verður upp á teningnum hvað varðar nýjustu sendingu frá Pfizer sem barst í morgun.
Þetta er að sögn Þórólfs óhætt núna þar sem búist er við því að aðföngin verði jafn dreifð á næstu vikum. Dreifing bóluefna var hins vegar óljósari í desember og því þótti ekki óhætt að bólusetja marga með fyrri skammti og vonast svo eftir næsta skammti á réttum tíma en um þrjár vikur þurfa að líða á milli skammtanna tveggja.
Forðist utanlandsferðir
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Þórólfur fjölluðu báðir um hertar aðgerðir á landamærum víða um heim á fundinum. Skilaboð þeirra voru þau að allir ættu að forðast að fara erlendis að nauðsynjalausu. Á landamærum sumra ríkja væri nú verið að óska eftir vottorðum um neikvæða skimun með mjög takmörkuðum tímaviðmiðunum, sem nær ómögulegt væri að útvega. „Við erum að heyra um mjög marga sem eru að lenda í vandræðum á landamærum víða þar sem beðið er um vottorð,“ sagði Þórólfur. „Það er algjörlega ljóst að mörg lönd eru að herða verulega á sínum landamærum og nú meðan menn eru að læra á það kerfi ætti fólk að forðast ferðir erlendis.“ Rögnvaldur sagði að þar sem sums staðar væri verið að óska eftir vottorðum um mjög skamman tíma frá sýnatöku væru landamærin þeirra landa því í raun og veru lokuð fyrir flesta.
Alma Möller landlæknir minnti á að við værum í einstaklegra góðri stöðu hvað faraldurinn snerti hér á landi. „En við megum samt alls ekki sofna á verðinum,“ sagði landlæknir og ítrekaði mikilvægi þess að virða reglur og persónubundnar sóttvarnir. „Höfum hugfast hvað þriðja bylgjan kom aftan að okkur og hvað lítið þurfti til. Látum það ekki gerast aftur.“