Hlutafé í Isavia hefur verið aukið um 15 milljarða króna, en þetta var samþykkt af hluthafafundi 12. janúar síðastliðinn. Þessir fjármunir koma úr ríkissjóði, en íslenska ríkið er eini eigandi Isavia.
Isavia greinir frá hlutafjáraukningunni í tilkynningu í dag. Þar segir að henni sé ætla að mæta rekstrartapi vegna COVID-19 og gera félaginu kleift að hefja vinnu við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli á ný.
Isavia fékk fjögurra milljarða króna innspýtingu í apríl á síðasta ári, til þess að þurfa ekki að fresta framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á Keflavíkurflugvelli.
Nú segir í tilkynningu Isavia að ljóst sé að ákvörðunin um að veita 15 milljörðum til félagsins skapi fjölda nýrra starfa við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, þar með talið strax á þessu ári.
Í fjárlögum ársins 2021 er heimild til að auka við hlutafé í opinberum félögum í því skyni að auka fjárfestingargetu eða bregðast við meiri háttar rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
„Það er gríðarlega mikilvægt að við verðum reiðubúin þegar flugumferð verður orðin álíka og fyrir heimsfaraldur. Fram að því getum við ráðist í framkvæmdir sem miða að því að gera Keflavíkurflugvöll samkeppnishæfari en áður. Það skilar sér til þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem starfa á flugvellinum, og ferðaþjónustunnar í heild,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni forstjóra Isavia í tilkynningu.
„Það er ljóst að við hjá Isavia getum lítið gert til að hafa áhrif á það hvenær ferðatakmörkunum í heiminum verður aflétt en við getum haft mikil áhrif á það hvernig okkur reiðir af á komandi árum. Það má ekki gleyma því að hlutafjáraukningin veitir okkur líka svigrúm til að mæta mismunandi sviðsmyndum út úr COVID-19 og á sama tíma auðvelda flugfélögum að hefja flug á ný þegar þar að kemur, m.a. með markaðsstuðningi. Okkur er falin mikil ábyrgð að sinna einum af lykilinnviðum landsins og við ætlum okkur að standa undir þeirri ábyrgð,“ er einnig haft eftir forstjóranum.
Verklok 2025
Fram kemur í tilkynningu Isavia að fyrirhuguðum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli sé ætlað að „styrkja samkeppnishæfni flugvallarins og tengistöðvarinnar með því að bæta þjónustu við viðskiptavini, bæta aðstöðu flugvéla og farþega, stytta afgreiðslutíma og auka þannig afköst og skilvirkni hans.“
Gert er ráð fyrir að þeim framkvæmdum sem fyrirhugað er að ráðast í að svo stöddu verði að fullu lokið árið 2025.